Afríska þjóðarráðið (ANC), sem leiðir ríkisstjórn Suður-Afríku, hefur lýst yfir stuðningi við íþróttakonuna Caster Semenya, sem sigraði örugglega í 800 metra hlaupi kvenna á HM í frjálsum íþróttum í Berlín í gær. ANC fordæmir jafnframt þá sem segjast efast um að hún sé kona.
Þá hvetur flokkurinn Suður-Afríkumenn til að styðja og hvetja „gullstúlkuna“, eins og Afríska þjóðarráðið kallar Semenya.
Fjölskylda hennar hefur einnig haldið því fram að hún sé kona, eftir að Semenyu var gert að gangast undir rannsóknir til að sannreyna kynferði sitt.
„Caster er ekki eina íþróttakonan sem er með karlmannlegan vöxt og Alþjóðafrjálsíþróttasambandið á að vita betur,“ segir í yfirlýsingu frá ANC.
Frjálsíþróttasamband Suður-Afríku hefur einnig haldið því fram að Semenya sé kvenmaður.