Sveit Jamaíka vann öruggan sigur í 4x100 metra hlaupi karla á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Berlín í kvöld. Sveitinni tókst hins vegar ekki að setja heimsmet, eins og margir höfðu þó búist við, en Usain Bolt, sem setti heimsmet í bæði 100 og 200 metra hlaupi í Berlín, var í sveitinni.
Sveit Jamaíka hljóp á 37,31 sekúndu sem er meistaramótsmet. Sveit Trinidad og Tobago varð í 2. sæti og sveit Bretlands í 3. sæti.
Bolt hljóp þriðja sprettinn og tókst ekki að sýna sitt besta. Þá gekk skiptingin milli hans og Asafa Powell, sem hljóp síðasta sprettinn, ekki sem best.
Í stangarstökki fór Ástralinn Steve Hooker með sigur af hólmi en hann fór yfir 5,90 metra. Hooker varð einnig ólympíumeistari í greininni á síðasta ári. Frakkarnir Romain Mesnil og Renaud Lavillenie urðu í 2. og 3. sæti en þeir fóru yfir 5,85 og 5,80 metra.