Fjölskylda Semenya bregst reið við

Caster Semenya fagnar heimsmeistaratitli í 800 metra hlaupi kvenna í …
Caster Semenya fagnar heimsmeistaratitli í 800 metra hlaupi kvenna í Berlín í ágúst. Reuters

Fjölskylda hlaupakonunnar Caster Semenya og framámenn í Suður-Afríku hafa brugðist ókvæða við fréttum um að læknisrannsókn á vegum Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins, IAAF, hafi leitt í ljós að Semenya sé tvíkynja. 

Áströlsk blöð fullyrtu í gærkvöldi, að rannsóknin hefði leitt í ljós að Semenya væri bæði með kven- og karlkynfæri. Hún sé ekki með eggjastokka heldur innvortis eistu, sem framleiði mikið af karlhormóninu testosterón. 

„Hvers vegna rekur öfundsýki fólk til að segja svona lagað? Hvers vegna segir þú þetta?" hafði breska blaðið The Times eftir Dorcus Semanya, móður Caster, í morgun. Segir blaðið að Dorcus hafi í kjölfarið skellt símanum á.  

Maphuthi Sekgale, amma Caster, sagðist vera reið og sár yfir þessum fréttum. „Ég ól hana upp og ég veit að hún er stúlka. Fjölskyldunni er alveg sama hver segir hvað og okkur er líka alveg sama þótt hún hlaupi ekki framar alþjóðlega."  

Leornado Chuene, forseti suður-afríska frjálsíþróttasambandsins, sagðist ekki vera hissa á þessum lausafregnum því hann hefði vitað að reynt yrði að sverta mannorð Semenya.

Winnie Madikizela-Mandela, sem situr á suður-afríska þinginu, sagðist afar sár yfir þessum fréttum en hún hefur hvatt Suður-Afríkubúa til að fylkja sér aðm baki Semeya. „Það er saklaust barn, sem er fórnarlambið í þessu máli," sagði hún við blaðið The Star. 

Ákvörðun í nóvember 

IAAF segist í yfirlýsingu í morgun, að niðurstöður kyngreiningarrannsókna hafi borist og hópur lækna og sérfræðinga muni nú fara yfir þær. Engin ákvörðun verði birt fyrr en að þeirri yfirferð lokinni og ekki sé reiknað með lokaákvörðun fyrr en á næsta fundi IAAF ráðsins í Mónakó 20.-21. nóvember. Fram að þeim tíma muni IAAF ekki tjá sig um þetta mál. 

Nick Davies, talsmaður IAAF, segir í tölvupósti til AP fréttastofunnar, að hann hafi ekki séð niðurstöður rannsóknanna og geti því ekki tjáð sig um fréttir áströlsku blaðanna. Hann segir hins vegar, að lögfræðingar IAAF segi, að ef í ljós komi að Semenya reynist hafa haft forskot á aðra keppendur vegna karlhormóna í líkama hennar þá verði afar erfitt að svipta hana verðlaunum vegna þess að hún hafi ekki haft vísvitandi rangt við.

„Hún hefur þá verið sköpuð þannig, hún var skráð til keppni af til þess bæru sambandi í landi hennar og IAAF samþykkti þá skráningu. En við skulum bíða og sjá hvað gerist þegar ákvörðun hefur verið tekin,“ segir Davies. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka