Broddi Kristjánsson, margfaldur Íslandsmeistari í badminton, varð í dag heimsmeistari í einliðaleik í flokki 45-49 ára þegar hann bar sigurorð af Dananum Kim Brodersen í úrslitaleik á Spáni.
Broddi tapaði fyrstu lotunni 13:21 en vann svo tvær þær næstu 21:15 og 21:14, og bætti þar með enn einni skrautfjöður í hatt sinn því hann hefur alls 43 sinnum orðið Íslandsmeistari, þar af 14 sinnum í einliðaleik.