Framarar hafa ekki enn ráðið eftirmann Viggós Sigurðssonar sem leystur var frá störfum sem þjálfari karlaliðs félagsins í handknattleik í síðustu viku.
,,Við erum í viðræðum við einn aðila en málin eru ekki komin á hreint ennþá. Þar til mun Einar Jónsson stýra liðinu,“ sagði Hlynur Elfar Þrastarson, varaformaður handknattleiksdeildar Fram, við Morgunblaðið í gær.
Framarar sitja á botni N1-deildarinnar með aðeins 2 stig eftir sex leiki en Safamýrarliðið sækir FH-inga heim í Kaplakrika í kvöld og mun Einar Jónsson stjórna liðinu eins og í bikarleiknum á móti ÍBV um síðustu helgi.
Haraldur Þorvarðarson, línumaðurinn sterki, er ekki búinn að jafna sig af meiðslum í kálfa og verður því fjarri góðu gamni í Krikanum í kvöld.
Leikurinn í Kaplakrika í kvöld hefst klukkan 19.30 á sama tíma mætast Grótta og Stjarnan á Seltjarnarnesi.
Að sögn Hlyns hyggjast Framarar reyna að styrkja lið sitt þegar opnað verður fyrir félagaskipti eftir áramótin en sú staða sem þeir leita helst til er skyttustaðan hægra megin. gummih@mbl.is