„Þetta var hreint magnað og dramatíkin var rosaleg. Við vorum tveimur mörkum undir þegar fjórar mínútur voru eftir en við gáfumst ekki upp og tókst að leggja Drammen að velli,“ sagði Eyjamaðurinn Sigurður Ari Stefánsson í samtali við Morgunblaðið eftir að lið hans, Elverum, varð norskur bikarmeistari í handbolta í gærkvöldi.
Lið Elverum bar sigurorð af Drammen, 25:24, í æsispennandi úrslitaleik sem háður var í Spektrum-höllinni í Osló að viðstöddum 6.700 áhorfendum. Sigurður skoraði eitt af mörkum Elverum sem lengst af leiknum var skrefi á eftir Drammen.
Staðan í leikhléi var 12:11, Drammen í vil, og í seinni hálfleik náði Drammen mest fjögurra marka forskoti en Sigurður og félagar áttu góðan endasprett og tókst að knýja fram sigur með því að skora sigurmarkið hálfri mínútu fyrir leikslok og var Lars Nordberg þar að verki.
Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Elverum-liðsins og braust út gríðarlegur fögnuður hjá leikmönnum og stuðningsmönnum liðsins í leikslok. Í fyrra tapaði Elverum bikarúrslitaleiknum gegn Runar. Sigurður skoraði sjö mörk í þeim leik og Kristinn Björgúlfsson skoraði fjögur fyrir Runar.
„Það ætlaði allt um koll að keyra hjá okkur leikmönnum þegar úrslitin voru ráðin og stuðningsmenn okkar grétu margir hverjir á pöllunum enda búnir að bíða lengi eftir bikarnum,“ sagði Sigurður, sem varð deildarmeistari með Elverum fyrir tveimur árum.
„Það kom ekki til greina að tapa bikarúrslitaleiknum annað árið í röð og núna finnur maður muninn. Það er ólíkt skemmtilegra núna. Þótt ég hafi ekki náð að skora nema eitt mark var ég mjög sáttur við minn leik. Ég átti góð skot sem markvörðurinn varði og fyrst skotin rötuðu ekki rétta leið þá reyndi ég bara að spila félaga mína uppi og það gekk fínt,“ sagði Sigurður Ari sem ætlar að verja áramótunum heima á Íslandi en hann er væntanlegur til landsins í dag og verður örugglega með gullverðlaunin um hálsinn.