Ísland stefnir á verðlaunasæti á HM í Eistlandi

Richard Tahtinen.
Richard Tahtinen. mbl.is/Guðmundur Rúnar

Íslenska karlalandsliðið í íshokkíi hefur leik í 2. deild heimsmeistaramótsins í dag þegar liðið mætir Nýja-Sjálandi. Ísland leikur í B-riðli og fara leikir riðilsins fram í Narva í Eistlandi. Auk Íslands eru í riðlinum, Eistland, Nýja-Sjáland, Kína, Ísrael og Rúmenía.

Íslenski hópurinn dvaldist í Svíþjóð í nokkra daga en hélt yfir til Eistlands í gær. Liðið æfði stíft í Svíþjóð og lék auk þess æfingaleik við sænska 1. deildar liðið Mörrum. Ísland tapaði fyrir sterku liði Svíanna 1:8 en nokkuð er um liðið síðan Íslandsmótinu lauk og því skorti nokkuð á leikæfinguna hjá mörgum leikmanna íslenska liðsins.

Landsliðsþjálfarinn, Richard Tahtinen tjáði Morgunblaðinu að einmitt þess vegna hafi verið mikilvægt að fá þennan æfingaleik.

„Það var mjög mikilvægt að fá þennan leik af mörgum ástæðum. Það er alltaf gott að æfa vel en leikurinn sýndi okkur hvar við stöndum í augnablikinu. Við lékum gegn mjög sterku liði og sáum glögglega í hvaða þáttum við þurfum að vinna til þess að bæta leik okkar,“ sagði Tahtinen í samtali við Morgunblaðið og sagði Ísland vera með skýr markmið fyrir HM.

„Okkar markmið er að verða í einu af þremur efstu sætunum og ná verðlaunasæti í þessum riðli. Besti árangur Íslands til þessa er 4. sæti í síðustu keppni og við stefnum á að bæta þann árangur,“ sagði Tahtinen en hlutskipti Íslands hefur oft verið að flakka á milli 2. og 3. deildar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert