Indverski skákmaðurinn Viswanathan Anand tók forustuna í heimsmeistaraeinvígi sínu við Búlgarann Veselin Topalov í dag þegar hann vann 4. einvígisskákina af 12. Hefur Anand nú 2½ vinning en Topalov er með 1½.
Anand var með hvítt í skákinni og Topalov gafst upp í 32. leik. Fimmta einvígisskákin verður á föstudag en teflt er í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu.
Anand varð heimsmeistari FIDE árið 2007 og varði titilinn árið 2008.