Vegna öskufallsins undanfarið í Vestmannaeyjabæ, hefur knattspyrnuráð ÍBV farið þess á leit við atvinnurekendur í bænum að leikmenn liðsins fái að fara til Reykjavíkur og æfa þar alla næstu viku, þar sem ekki er útlit fyrir að hægt verði að æfa utandyra í Eyjum næstu daga. Þetta þýðir að leikmenn liðsins munu missa úr vinnu til næsta þriðjudags.
Næstu þrír leikir liðsins eru á höfuðborgarsvæðinu eða mánudag, fimmtudag og aftur annan mánudag. Atvinnurekendur í Eyjum hafa allir sýnt þessu mikinn skilning og orðið við beiðni ÍBV. Vill knattspyrnuráð ÍBV koma miklum þökkum til þessara aðila fyrir góðan skilning og gott samráð. Það er ekki sjálfgefið að slíkur samhugur sé sýndur meðal fyrirtækja vegna þeirra erfiðu aðstæðna sem eru komnar upp.