Suður-Afríka vill líka halda Ólympíuleika

Green Point völlurinn í Höfðaborg tekur 64.100 manns í sæti.
Green Point völlurinn í Höfðaborg tekur 64.100 manns í sæti. Reuters

Suður-Afríka ætlar að sækjast eftir því að fá að halda Ólympíuleikana árið 2020 að því er yfirmaður Ólympíunefndar landsins fullyrðir. Landið hélt sem kunnugt er heimsmeistaramótið í fótbolta, sem nú er nýlokið, með glæsibrag.

„Við höfum ákveðið að nú sé rétta skrefið að fá stjórnvöld og hlutaðeigandi aðila með okkur í það verkefni að gera hér þannig umbætur að suður-afrísk borg geti haldið fyrstu Ólympíuleikana í Afríku árið 2020,“  sagði Tubby Reddy yfirmaður Ólympíunefndar Suður-Afríku í dag.

Meiningin er eflaust að leikarnir fari fram í Höfðaborg, frekar en Jóhannesarborg eða annarri borg Suður-Afríku, en Höfðaborg var á meðal umsækjanda sem vildu halda leikana árið 2004. Þá fóru leikarnir hins vegar fram í Aþenu.

Jacques Rogge, yfirmaður alþjóða Ólympíunefndarinnar, segir að það yrði ánægjulegt að fá umsókn frá Suður-Afríku vegna leikanna 2020.

Næstu Ólympíuleikar fara fram í London 2012 og í Rio de Janeiro í Brasilíu árið 2016.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert