Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni vann til bronsverðlauna í sjöþraut á HM unglinga í frjálsum íþróttum í Kanada í nótt. Helga tryggði sér bronsið með því að vinna síðustu tvær greinarnar, spjótkast og 800 metra hlaup.
Helga fékk fyrir þrautina 5706 stig og vann bronsið með minnsta möguleika mun því næsti keppandi var aðeins 1 stigi á eftir! Íslandsmet Helgu er 5878 stig. Dafne Schippers frá Hollandi sigraði með 5967. Hún var með bestan árangur keppenda fyrir fram og bætti sinn besta árangur. Sigur hennar var því sannfærandi.
Eftir fimm greinar af sjö var Helga í 7. sæti og verðlaunasæti virtist fjarlægur möguleiki. Hún kastaði spjótinu 49,47 metra og tryggði sér sigur í greininni. Að spjótkastinu loknu var hún aðeins 2 stigum á eftir Grete Sadeiko frá Eistlandi. Helga tók sig til og gersamlega burstaði 800 metra hlaupið á 2.15,81 mín. Sadeiko var sú eina sem eitthvað hélt í við Helgu en þegar stigin voru reiknuð saman var ljóst að Helga hafði fengið þremur stigum meira í hlaupinu og hirti þannig bronsið.
Bronsþraut Helgu:
100m grindahlaup: 14,39 sek.
Hástökk: 1,63 metrar
Kúluvarp: 13,10 metrar
200 metra hlaup: 25,62 sek.
Langstökk: 5,55 metrar.
Spjótkast: 49,47 metrar.
800 metra hlaup: 2.15,81 mín.