„Þetta er alveg magnað lið, þessar stelpur. Hver og ein manneskja er búin að setja þetta mót í algjöran forgang í sínu lífi og það er það sem hefur skilað þessum árangri,“ sagði Ása Inga Þorsteinsdóttir sem ásamt Birni Björnssyni og Bjarna Gíslasyni þjálfar kvennalið Gerplu sem varð Evrópumeistari í hópfimleikum með glæsilegum hætti í Malmö um helgina.
Gerpla fékk flest stig í undanúrslitum mótsins og bætti svo enn í í úrslitunum þar sem liðið stóð sig langbest í öllum þrem greinum hópfimleikanna, þ.e. gólfæfingum, dýnustökki og trampolínstökki. Liðið hlaut 50,233 stig en Svíar komust næstir með 47,433 stig og lið frá Noregi hlaut 46,416 stig. Gerpla fékk silfurverðlaun á EM 2006 og 2008, en hverju má þakka svo glæsilegan sigur nú?
Snerum alveg við blaðinu
Við vorum í 1. sæti í undanúrslitunum á síðasta Evrópumeistaramóti, og þá voru svo margir sem sögðu við okkur að það væri hættulegt að vera á toppi fjallsins of snemma því það væri svo auðvelt að detta niður. Við vorum með þá tilfinningu í okkur þá í úrslitunum, að það væri svo auðvelt að mistakast. Núna snerum við hins vegar alveg við blaðinu og hugsuðum með okkur að við vildum vera í 1. sætinu í undanúrslitunum því við værum einfaldlega best. Stelpurnar ákváðu bara að þær ætluðu ekki að láta nægja að vinna mótið, við fórum út til að rústa þessu móti,“ sagði Ása Inga en til að tileinka sér rétt hugarfar leituðu liðsmenn Gerplu meðal annars til Ólafs Kristjánssonar, þjálfara Íslandsmeistara karla í knattspyrnu, sem ku hafa lagt mikið upp úr að vinna með hugarfar sinna leikmanna.
Nánar er fjallað um Evrópumeistaramótið í hópfimleikum í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.