Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra var haldið í Laugardalslauginni í dag. Þetta er í tuttugasta og áttunda sinn sem mótið er haldið.
„Þetta gekk alveg glimrandi vel. Það var metþátttaka, rúmlega hundrað krakkar á aldrinum sautján ára og yngri tóku þátt,“ segir Jón Björn Ólafsson íþróttagreinastjóri sambandsins.
Við setningu mótsins veittu viðstaddir einnar mínútu þögn til minningar um Erling Þ. Jóhannsson sem lést á dögunum. Erlingur var brautryðjandi í sundíþróttinni á Íslandi og þjálfaði helstu afreksmenn þjóðarinnar úr röðum fatlaðra. Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Hrafnhildur Hámundardóttir, eiginkona Erlings heitins, afhjúpuðu minningarskjöld sem mun standa í Laugardalslaug um ókomin ár.