SR og SA takast á í fjórða leik úrslitarimmunnar um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí karla í Skautahöllinni í Laugardal í dag kl. 13.15.
Staðan í einvíginu er 2:1 fyrir SR en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari og SR-ingar geta því tryggt sér titilinn með sigri í dag. SR fékk til þess tækifæri á Akureyri á fimmtudagskvöldið en þá sigruðu ríkjandi meistarar í SA 3:2 í spennandi leik.
Gunnar Guðmundsson, fyrirliði Bjarnarins, sagði við Morgunblaðið í gær að sú staða sem upp hafi komið eftir fyrstu tvo leikina hafi komið sér nokkuð á óvart. „Úrslitakeppnin hefur komið mér nokkuð á óvart því ég hélt að Akureyringarnir yrðu sterkari og myndu jafnvel valta yfir SR-inga. Staðan kom mér því á óvart en SR er með nokkra hrikalega sterka leikmenn og þar nefni ég Gauta og Egil Þormóðssyni, Pétur Maack og Ævar Þór Björnsson markmann. Þremenningarnir skora þegar þeir fá tækifæri til og geta breytt leikjum. SA er hins vegar með þéttari hóp og í stöðunni fimm á móti fimm er SA yfirleitt sterkara,“ sagði Gunnar og hann reiknar með oddaleik.
„Ég á von á því að þetta fari í oddaleik og SA endurtaki leikinn frá því í fyrra. Þá lentu þeir 1:2 undir á móti okkur en unnu 3:2. Okkar mistök voru þau að í fjórða leiknum gátum við klárað dæmið en vorum með á bak við eyrað að við ættum annað tækifæri. Það var hins vegar að duga eða drepast fyrir SA og þeir eru í sömu stöðu núna,“ benti Gunnar á en segir að refsimínúturnar geti skipt sköpum og færir fyrir því rök:
„SA er sterkara að mínu mati þegar liðin eru fullskipuð og með fleiri reynslumikla menn. Bæði liðin eru hins vegar sterk þegar þau eru manni fleiri á ísnum og 60% markanna í fyrsta leiknum komu við slíkar aðstæður. Úrslitin gætu því ráðist á því hvort liðið nær að halda sér frá tveggja mínútna brottvísunum,“ útskýrði Gunnar Guðmundsson. kris@mbl.is