SA í góðri stöðu eftir sigur

Hart barist á svellinu í Egilshöllinni í kvöld.
Hart barist á svellinu í Egilshöllinni í kvöld. mbl.is/Golli

Öðrum leik Bjarnarins og SA um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkí var rétt í þessu að ljúka í Egilshöll. SA vann nauman en mikilvægan sigur á Birninum 3:2 og leiðir nú í einvíginu 2:0. Næsti leikur liðanna verður á Akureyri á miðvikudaginn þar sem SA getur tryggt sér titilinn.

SA skoraði öll sín mörk í fyrsta leikhluta en Björninn mörkin sín tvö í þriðja og síðasta leikhluta. 

Markaskorara má sjá hér að neðan en vænta má frekari umfjöllunnar um leikinn og viðtöl við leikmenn síðar í kvöld og í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið. 

53. Mark - 2:3! Björninn nýtti sér það að leikmaður SA var utanvallar og skoraði annað mark sitt í leiknum og nú munar aðeins einu marki á liðunum. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir skoraði markið eftir stoðsendingu frá Ingibjörgu Guðrúnu Hjartardóttur. Glæsilegt mark og nú taka áhorfendur við sér í Egilshöllinni.Spurningin er hvort Björninum takist að skora annað og tryggja sér framlenginu.

51. Mark - 1:3! Hanna Rut Heimisdóttir er búinn að minnka muninn fyrir Björninn en markið skoraði hún án stoðsendingar. Hún gefur Birninum von sérstaklega þar sem leikmaður SA Védís Áslaug fékk tveggja mínútna refsingu í kjölfarið.

47. Fjórða skiptið í leiknum komast leikmenn SA einir upp völlinn gegn Karítas markverði Bjarnarins en í öll skiptin hefur hún varið meistaralega. Í þetta skiptið var það Sarah Smiley sem komst ein inn fyrir. Í kjölfarið fékk Guðrún Blöndal hjá SA sína aðra brottvísun í leiknum fyrir hindrun. Steinunn Sigurgeirsdóttir fékk einnig tveggja mínútna brottvísun hjá Birninum og því bæði lið með fjóra leikmenn inná vellinum. Það verður spennandi að sjá!

45. Guðrún Marín Viðarsdóttir leikmaður SA fær tveggja mínútna brottvísun fyrir að halda í kylfu leikmanns Bjarnarins. 

43. Sarah Smiley, Arndís Sigurðardóttir og Bergþóra Bergþórsdóttir gerðu rétt í þessu mikla athlögu að marki Bjarnarins en Karítas varði vel.

41. Þriðji leikhluti er hafinn!

40. Öðrum leikhluta af þremur er lokið í leik Bjarnarins og SA en staðan er enn 0:3 gestunum í vil. Öll mörkin komu í fyrsta leikhluta. Í öðrum leikhluta sótti lið SA mun meira fyrstu 12 mínúturnar en Björninn sótti í sig veðrið og virtist eiga meira eftir á lokakaflanum. Flosrún Vaka Jóhannesdóttir átti hættulegt væri undir lokinn þegar hún átti gott skot sem Guðlaug í marki SA varði. Þriðji leikhlutinn hefst þegar klukkan er um það bil 21:20.

36. Það er ótrúlegt að ekki sé komið mark í annan leikhluta en bæði lið hafa sótt mikið þá sérstaklega leikmenn SA. Til að mynda komst Birna Baldursdóttir ein gegn Karítas í marki Bjarnarins eftir slæm mistök hjá fyrirliðanum Elvu Hjálmarsdóttir. Katrín Hrund Ryan leikmaður SA var að fá tveggja mínútna refsingu.

28. Bæði lið sækja af krafti án þess þó að liðin nái að koma pekkinum í netið. SA er búið að setja mikla pressu að marki Bjarnarins en Björninn beitir að sama skapi skyndisóknum þegar færi gefast. Karítas Halldórsdóttir markvörður Bjarnarins er búin að verja þrjú skot núna á síðustu mínútunum.

21. Annar leikhluti er hafinn og eftir aðeins 43 sekúndur fær Elva Hjálmarsdóttir fyrirliði 2 mínútna refsingu fyrir að halda leikmanni SA.

20. Fyrsta leikhluta er lokið hér í Egilshöllinni. SA er búið að vera sterkara eins og tölurnar gefa til kynna. Það er ekki þar með sagt að Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir markvörður SA hafi ekki haft neitt að gera. Síður en svo þá hefur hún oft bjargað gestunum vel. Það má búast við áframhaldandi skemmtun og fyrir áhugasama eru laus sæti í stúkunni sem er þó langt frá því að vera tóm.

17. Mark - 0:3! Þegar þrjár mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta eykur Birna Baldursdóttir muninn í þrjú mörk fyrir SA. Björninn virðist eiga fá svör í vörninni gegn sterku sóknarliði SA. Þorbjörg Gerisdóttir átti stoðsendinguna.

15. Björninn átti rétt í þessu tvær hættulegar tilraunir að marki SA. Í fyrra skiptið nýtti Kristín Ingadóttir sér hraðann og stakk vörn SA af en Guðlaug Þorsteinsdóttir markvörður SA varði vel. Í seinna skiptið fylgdi Kristín eftir skoti sem hrökk af varnarmanni SA en inn vildi pökkurinn ekki.

12. Mark - 0:2! Hrund Torlacius nýtir sér liðsmuninn og skorar annað mark SA með langskoti. Pökkurinn virtist þó fara í einhvern leikmann eða kylfu á leiðinni en Hrund á svo sannarlega þetta glæsilega mark. 

10. Liðin skiptast á að sækja en hvorugt liðið hefur skapað sér hættuleg færi. Ingibjörg Hjartardóttir leikmaður Bjarnarins fékk tveggja mínútna refsingu rétt í þessu.

4. Mark - 0:1! Sarah Smiley spilandi þjálfari SA er búinn að koma gestunum yfir með góðu marki en hún fékk sendingu inn fyrir vörn Bjarnarins hægra megin á vellinum og lagði pökkinn framhjá Karítas Sif í markinu.  

1. Guðrún Blöndal fyrirliði SA fékk tveggja mínútna brottvísun strax í fyrstu sókn SA.

Leikurinn er hafinn en um 10 mínútna töf er á honum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert