Þriðji stórsigur íslensku strákanna

Íslenska liðið sem spilar í Mexíkó.
Íslenska liðið sem spilar í Mexíkó.

Íslenska piltalandsliðið í íshokkí, skipað leikmönnum 18 ára og yngri, vann Suður-Afríku, 14:2, á heimsmeistaramótinu í Mexíkó í nótt og hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína með miklum yfirburðum.

Íslensku strákarnir unnu fyrst Ísrael 12:0 og síðan Írland 22:0, og eru efstir í B-riðli 3. deildarinnar með 9 stig, eins og gestgjafarnir í Mexíkó. Liðin mætast í hreinum úrslitaleik í lokaumferðinni í kvöld, reyndar um miðja næstu nótt að íslenskum tíma. Sigurliðið í þeirri viðureign leikur í 2. deild á næsta ári.

Íslenska liðið var strax eftir fyrstu lotu komið í þægilega stöðu með 3:1 forystu gegn Suður-Afríku. Liðið gerði síðan út um leikinn í annarri lotu sem endaði 7:0 fyrir íslenska liðinu. Lokalotan endaði síðan 4:1. Jóhann Már Leifsson var að leik loknum valinn maður leiksins úr íslenska liðinu.

Mörk/stoðsendingar Íslands:

Björn Róbert Sigurðarson 3/2
Sigurður Reynisson 3/1
Kári Guðlaugsson 2/0
Brynjar Bergmann 1/2
Falur Birkir Guðnason 1/1
Guðmundur Þorsteinsson 1/1
Viktor Ólafsson 1/0
Ingólfur Elíasson 1/0
Gunnlaugur Guðmundsson 1/0
Jóhann Leifsson 0/2
Ingþór Árnason 0/1
Sigursteinn Atli Sighvatsson 0/1

Refsingar Íslands: 12 mínútur

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert