Hreiðar Örn Zöega, sem kjörinn var formaður Ungmennafélagsins Aftureldingar á aðalfundi þess á síðasta fimmtudagskvöld, sagði af sér í gær. Talsverð átök hafa verið innan félagsins eftir fundinn þar sem sitjandi formaður var felldur í kosningu en aðalfundurinn var einn sá fjölmennasti hjá félaginu í áratugi.
Meðal annars var kjörinn ný stjórn á fundinum því allir þeir sem unnið höfðu með formanninum sem felldur var sögðu af sér að loknum formannskjörinu.
Hreiðar Örn segir m.a. í yfirlýsingu sem hann gaf út síðdegis í gær, og birt er á heimsíðu Aftureldingar, „á aðalfundinum hófst einhver atburðarás sem ég get ekki sætt mig við, og hef því ákveðið að stíga úr formannsstóli."
Áður en formaðurinn sagði af sér í gær munu nær allir formenn deilda innan Aftureldingar hafa verið reiðubúnir að lýsa yfir vantrausti á nýkjörinn formann.
Óvíst er hvað tekur við hjá Aftureldingu nú en samkvæmt heimildum er varaformaður félagsins ekki tilbúinn að taka við embætti formanns við núverandi aðstæður.
Ungmennafélagið Afturelding er eitt elsta starfandi ungmennafélag landsins, stofnað 11. apríl 1909.