Andri: Lögðum allir eitthvað af mörkum

Andri í baráttunni í leiknum gegn Rúmeníu á HM.
Andri í baráttunni í leiknum gegn Rúmeníu á HM. mbl.is/Kristján Maack

Andri Mikaelsson opnaði markareikning sinn á HM í Króatíu í sigrinum á Kína í dag og hann var ánægður með leik íslenska liðsins þegar mbl.is ræddi við hann.

Andri sagði íslensku leikmennina hafa verið duglegri en þá kínversku auk þess sem Íslendingar hefðu nýtt sér breiddina í leikmannahópnum. „Við skautuðum meira en þeir að mér fannst og við unnum hlutina vel saman. Þeir spiluðu á frekar fáum mönnum og þeir urðu þreyttir á lokamínútunum og þá skautuðum við yfir þá,“ sagði Andri við mbl.is þegar niðurstaðan lá fyrir en Ísland sigraði 5:3 eftir spennandi leik þar sem Ísland hafði frumkvæðið en Kína jafnaði bæði 1:1 og 2:2 auk þess að minnka muninn 4:3. Andri skoraði þriðja mark Íslands og kom liðinu yfir 3:2.

„Loksins fór pökkurinn inn hjá mér en ég er búinn að eiga nokkur stangarskot í ferðinni og það var góð tilfinning að sjá hann í netinu. Jón Gísla lagði markið vel upp og það er gott að spila með honum og Robin Hedström. Við fundum okkur ágætlega saman en við höfðum ekki verið þrír saman í línu fyrr en í þessum leik. Allir leikmenn liðsins komu vel undirbúnir í leikinn því við vissum að leikurinn yrði erfiður og við lögðum allir eitthvað af mörkum,“ bætti Andri við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert