Úlfar: Gekk vel að nýta okkur liðsmuninn

Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína.
Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína. mbl.is/Kristján Maack

Úlfar Andrés­son kom Íslend­ing­um á bragðið gegn Kín­verj­um í dag og skoraði fyrsta mark leiks­ins á 14. mín­útu.

Ísland sigraði 5:3 í fjör­ug­um leik og á nú góða mögu­leika á því að end­ur­taka leik­inn frá því í fyrra og vinna til bronsverðlauna. „Okk­ur gekk vel að nýta okk­ur liðsmun­inn þegar Kín­verj­arn­ir fengu brott­vís­an­ir. Það eru bestu tæki­fær­in sem gef­ast til að skora og við nýtt­um okk­ur það fjór­um sinn­um í dag. Það er góð nýt­ing en okk­ur hef­ur ekki gengið of vel í þeirri stöðu til þessa í mót­inu. Þessi þátt­ur skipti miklu máli,“ sagði Úlfar í sam­tali við mbl.is þegar sig­ur­inn var í höfn. 

Hann var ánægður með að vera kom­inn á blað í marka­skor­un. „Mér hef­ur yf­ir­leitt tek­ist að skora í þess­um keppn­um og að er mjög gam­an að skora og einnig gam­an að skora fyrsta markið í leikn­um,“ sagði Úlfar og sagði Sig­urð Sig­urðsson og Matth­ías Mána Sig­urðar­son hafa lagt markið vel upp sem kom eft­ir svo­kallað „face off“ sem er í raun­inni eins og dóm­arak­ast í bolta­grein­un­um.

„Siggi er mjög sterk­ur í „face off“ og planið var að hann myndi vinna pökk­inn. Máni átti að taka báða menn­ina sem hann gerði mjög vel og þegar Siggi gaf pökk­inn á mig þá hélt markvörður­inn að Siggi væri að gefa hann til baka á varn­ar­mann. Ég hafði því nán­ast allt markið til að setj­ann í og þetta var rosa­lega góð vinna hjá Sigga og Mána en ég þurfti minnst að gera,“ sagði Úlfar hóg­vær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka