Úlfar: Gekk vel að nýta okkur liðsmuninn

Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína.
Úlfar Andrésson skoraði fyrsta mark Íslands gegn Kína. mbl.is/Kristján Maack

Úlfar Andrésson kom Íslendingum á bragðið gegn Kínverjum í dag og skoraði fyrsta mark leiksins á 14. mínútu.

Ísland sigraði 5:3 í fjörugum leik og á nú góða möguleika á því að endurtaka leikinn frá því í fyrra og vinna til bronsverðlauna. „Okkur gekk vel að nýta okkur liðsmuninn þegar Kínverjarnir fengu brottvísanir. Það eru bestu tækifærin sem gefast til að skora og við nýttum okkur það fjórum sinnum í dag. Það er góð nýting en okkur hefur ekki gengið of vel í þeirri stöðu til þessa í mótinu. Þessi þáttur skipti miklu máli,“ sagði Úlfar í samtali við mbl.is þegar sigurinn var í höfn. 

Hann var ánægður með að vera kominn á blað í markaskorun. „Mér hefur yfirleitt tekist að skora í þessum keppnum og að er mjög gaman að skora og einnig gaman að skora fyrsta markið í leiknum,“ sagði Úlfar og sagði Sigurð Sigurðsson og Matthías Mána Sigurðarson hafa lagt markið vel upp sem kom eftir svokallað „face off“ sem er í rauninni eins og dómarakast í boltagreinunum.

„Siggi er mjög sterkur í „face off“ og planið var að hann myndi vinna pökkinn. Máni átti að taka báða mennina sem hann gerði mjög vel og þegar Siggi gaf pökkinn á mig þá hélt markvörðurinn að Siggi væri að gefa hann til baka á varnarmann. Ég hafði því nánast allt markið til að setjann í og þetta var rosalega góð vinna hjá Sigga og Mána en ég þurfti minnst að gera,“ sagði Úlfar hógvær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka