Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, hefur tilkynnt, að hafin sé rannsókn á því hvort Sepp Blatter, forseti sambandsins, hafi brotið siðareglur sambandsins. Þarf Blatter að skila skýrslu um málið á morgun og koma fyrir siðanefnd FIFA á sunnudag.
Blatter er sakaður um að hafa horft framhjá ásökunum um að fulltrúar Karíbahafseyja í framkvæmdastjórn FIFA hafi tekið við mútugreiðslum í tengslum við atkvæðagreiðslu um hvar næstu heimsmeistaramót í knattspyrnu verði haldin.
Áður hefur Mohamed bin Hammam, sem er í framboði gegn Blatter í forsetakjöri FIFA í næstu viku, verið boðaður á fund siðanefndar FIFA á sunnudag vegna ásakana um spillingu.
Er nú óljóst hvort forsetakjörið, sem fyrirhugað er á miðvikudag, fer fram.