Júdókapparnir Hermann Unnarsson og Þormóður Árni Jónsson voru heldur betur seinheppnir um helgina er þeir hugðust taka þátt í heimsbikarmóti í Tallinn í Eistlandi.
Þeir félagar mættu galvaskir í Flugstöð Leifs Eiríkssonar klukkan sex á laugardagsmorgun en yfirgáfu hins vegar aldrei fósturjörðina. Áttu þeir að fljúga til Helsinki en flugvélin sem átti að flytja þá þangað bilaði í Lundúnum.
Fyrir vikið biðu þeir í átta klukkustundir og féllu að lokum á tíma þegar ljóst var orðið að þeir næðu ekki á keppnisstað í tæka tíð en þá var brottför áætluð klukkan 17:20 eftir því sem fram kemur á vef Júdófélags Reykjavíkur.
Þessi uppákoma var vitaskuld afskaplega bagaleg fyrir þá félaga sem eru að undirbúa sig fyrir HM í Frakklandi í ágúst. kris@mbl.is