Ingólfur Tryggvi Elíasson, varnarmaðurinn efnilegi hjá Íslandsmeisturum SA, er eftirsóttur hjá erlendum íshokkífélögum og mun að líkindum leika erlendis á næsta keppnistímabili.
Ingólfur var frekar rólegur yfir stöðu mála þegar Morgunblaðið hafði samband við hann í gær en sagðist hafa sett stefnuna á að komast utan í sumar. Hann sagði þó ekkert vera frágengið í þeim efnum. Eins og sakir standa er líklegast að Ingólfur endi annaðhvort í Álaborg í Danmörku eða hjá Mjölby í Svíþjóð sem samherji hans í landsliðinu, Emil Alengård, leikur með. Ingólfur sagði forráðamenn Mjölby hafa sýnt mikinn áhuga en ekki sé búið að finna hentuga skólavist en Ingólfur hefur lokið tveimur árum í Menntaskólanum á Akureyri og hefur hug á því að halda stúdentsnáminu áfram.
Ingólfur er hávaxinn og líkamlega sterkur og hefur að sögn viðmælenda Morgunblaðsins alla burði til að ná langt í íþróttinni. Sökum ungs aldurs er hann gjaldgengur með U-20 ára liðum erlendra félaga. Aðallið Mjölby leikur í þriðju deild af sjö í Svíþjóð en Álaborgarliðið er í efstu deild í Danmörku.