Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni verður meðal keppenda á HM í Suður-Kóreu í lok mánaðarins en þetta varð ljóst þegar hún náði lágmarkinu fyrir mótið á litlu móti í Laugardalnum í kvöld. Hún náði einnig lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í London á næsta ári.
Ásdís kastaði 59,12 metra í kvöld en HM-lágmarkið sem hún þurfti að ná fyrir 15. ágúst er 59 metrar. Ásdís getur því farið afslöppuð til leiks á Demantamótið í London þar sem hún keppir á föstudaginn við bestu spjótkastara heims.
Með því að kasta yfir 59 metra er Ásdís eins og áður segir einnig búin að tryggja sér sæti á Ólympíuleikunum eftir ár. Það verða aðrir Ólympíuleikar Ásdísar því hún keppti einnig í Peking 2008.