Gullið dæmt af Kúbumanninum

Dayron Robles, fyrir miðju, var dæmdur úr leik.
Dayron Robles, fyrir miðju, var dæmdur úr leik. Reuters

Dayron Robles frá Kúbu hefur verið dæmdur úr leik í 110 metra grindahlaupinu á heimsmeistaramótinu í Daegu og gullverðlaunin færð í hendur Bandaríkjamannsins Jasons Richardsons.

Robles, Ólympíumeistarinn frá því í Peking og heimsmethafinn, kom fyrstur í mark en hann og Kínverjinn Xiang Liu snertust lauslega á leið yfir næstsíðustu grindina með þeim afleiðingum að Xiang fataðist aðeins flugið og dróst örlítið aftur úr þeim Robles og Richardson á lokasprettinum.

Kínverjar sendu inn mótmæli og þau voru tekin til greina. Kúbumaðurinn var dæmdur úr leik og mótmælum Kúbumanna vegna þess var vísað frá.

Liu fékk þar með silfrið og upp á verðlaunapallinn færðist Andrew Turner frá Bretlandi sem hafði endað í fjórða sætinu í hlaupinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert