Kári Steinn: Alveg rosalega gott

Þátttakendur í Berlínarmaraþoninu hlaupa fram hjá Sigursúlunni í Berlín í …
Þátttakendur í Berlínarmaraþoninu hlaupa fram hjá Sigursúlunni í Berlín í morgun. Reuters

„Þetta var alveg rosalega gott og frábært að ná markmiðunum strax í fyrstu tilraun,“ sagði Kári Steinn Karlsson, nýbakaður Íslandsmethafi í maraþonhlaupi, er mbl.is náði tali af honum áðan skömmu eftir að hann hafði lokið keppni í Berlínarmaraþoninu.

Þar náði Kári Steinn tvöföldum áfanga þar sem hann sló 26 ára gamalt Íslandsmet Sigurðar Péturs Sigmundssonar um rúmar tvær mínútur um leið og hann tryggði sér keppnisrétt í maraþonhlaupi á Ólympíuleikunum í London á næsta sumri.

Kári Steinn kom í mark á 2 klukkustundum, 17 mínútum og 12 sekúndum. Ólympíulágmarkið er 2 stundir og 18 mínútur.

„Það var frábært að ná lágmarkinu í fyrsta áfanga, ekki síst þar sem ég var búinn að vera nokkuð yfirlýsingaglaður fyrir hlaupið en ég taldi bara að innistæða væri fyrir yfirlýsingunum,“ sagði Kári Steinn sem hljóp í morgun sitt fyrsta maraþonhlaup á ævinni.

„Mér leið vel framan af hlaupinu og eftir hálft maraþon var ég í fínu formi og fullur sjálfstrausts. Ég sá fram á að með sama áframhaldi myndi ég ná takmarkinu. Ég var sterkur og hljóp vel á milli 20 og 30 kílómetrum en eftir það kom upp smá óvissa hjá mér því það er sagt að maður geti hlaupið á vegg eftir 35 kílómetra. Þegar ég koma að 34 kílómetra markinu fór ég að fá smákrampa í báða kálfana. Við það varð ég stressaður þótt vissan um getuna og formið væri fyrir hendi. Þá brá ég á það ráð að breyta aðeins um stíl og hægja á ferðinni. Þannig tókst mér að dröslast í markið og það var mikill léttir þegar yfir marklínuna var komið,“ sagði Kári Steinn sem vitanlega var í sjöunda himni.

„Nú tekur við tveggja til þriggja vikna hlé en eftir það þá fer ég á fullu að einbeita mér að æfingum fyrir Ólympíuleikna.

Ég er alveg hrikalega ánægður með að hafa náð ólympíulágmarkinu í fyrstu atrennu. Ef það hefði ekki heppnast hefði ég þurft að fara í annað hlaup í kringum áramótin og þar af leiðandi ekki getað undirbúið mig eins vel fyrir keppnina á Ólympíuleikunum," sagði Kári Steinn Karlsson, Íslandsmethafi í maraþonhlaupi, eftir að hann setti Íslandsmet í maraþonhlaupi og tryggði sér keppnisrétt á næstu Ólympíuleikum með glæsilegum árangri í Berlínarmaraþoninu í morgun.

Kári Steinn Karlsson Íslandsmethafi í maraþonhlaupi.
Kári Steinn Karlsson Íslandsmethafi í maraþonhlaupi. Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert