Skelltu Kínverjum og leika í 2. deild

Ólafur Hrafn Björnsson skoraði eitt markanna gegn Kína og var …
Ólafur Hrafn Björnsson skoraði eitt markanna gegn Kína og var valinn besti leikmaður Íslands á mótinu. mbl.is

Íslenska landsliðið í íshokkí skipað leikmönnum 20 ára og yngri tryggði sér í nótt sigur í 3. deild á heimsmeistaramótinu með því að leggja Kínverja í lokaleik sínum á mótinu á Nýja-Sjálandi. Leikurinn endaði 5:1 og mun íslenska liðið því leika í 2. deild á komandi ári.

Fyrir leikinn var talið að liðin væri nokkuð jöfn að getu en íslenska liðið var töluvert sterkara í leiknum og átti 53 skot að marki Kínverja en þeir að sama skapi einungis 14 skota að marki Íslands. Íslenska liðið vann þar með alla fjóra leiki sína á sannfærandi hátt og fékk 12 stig en Kínverjar 9 stig.

Það voru þó Kínverjar sem komust yfir  með marki fljótlega í leiknum en íslenska liðið náði að jafna og komast yfir áður en lotan var á enda. Það var Ingþór Árnason sem átti fyrra markið en Steindór Ingason það síðara.  

Íslenska liðið bætti svo við marki í miðlotunni en þar var á ferðinni Björn Róbert Sigurðarson en hann var að leik loknum valinn maður leiksins í íslenska liðinu.

Í þriðju og síðustu lotunni bættu svo Arnar Bragi Ingason og Ólafur Hrafn Björnsson við sitthvoru markinu.

Í mótslok var Ólafur Hrafn Björnsson valinn leikmaður íslenska liðsins af þjálfurum mótsins og stjórnendur mótsins völdu Ingólf Tryggva Elíasson varnarmann mótsins.

Mörk/stoðsendingar Íslands:

Arnar Bragi Ingason 1/1
Ólafur Hrafn Björnsson 1/0
Björn Róbert Sigurðarson 1/0
Ingþór Árnason 1/0
Steindór Ingason 1/0
Ingólfur Tryggvi Elíasson 0/3
Jóhann Leifsson 0/2
Tómas Tjörvi Ómarsson 0/1
Ólafur Árni Ólafsson 0/1
Sigurður Reynisson 0/1

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert