SR burstaði SA Víkinga í Laugardalnum

Frá viðureign SR og SA í kvöld.
Frá viðureign SR og SA í kvöld. mbl.is/Ómar Óskarsson

SR og SA Víkingar áttust við í Skautahöllinni í Laugardal klukkan 20:00 á Íslandsmóti karla í íshokkí. SR vann stórsigur 7:2 og Akureyringar eiga nú litla möguleika á því að komast í úrslitakeppnina. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Mörk/stoðsendingar SR: Robbie Sigurðsson 2/0, Arnþór Bjarnason 1/1, Björn Róbert Sigurðarson 1/1, Daniel Kolar 1/0, Guðmundur Björgvinsson 1/0, Gauti Þormóðsson 1/0, Svavar Steinsen 0/2, Ævar Þór Björnsson 0/1, Daníel Steinþór Magnússon 0/1, Kristján Gunnlaugsson 0/1, Snorri Sigurbjörnsson 0/1, Steinar Páll Veigarsson 0/1, Svavar Steinsen 0/2.

Mörk/stoðsendingar SA:
Andri Mikaelsson 1/0, Steinar Grettisson 1/0, Andri Freyr Sverrisson 0/1.

60. mín: Leik lokið. SR sigraði 7:2 og hafði mikla yfirburði í leiknum. Sjöunda mark SR skoraði Arnþór Bjarnason undir lok leiksins eftir stoðsendingu frá Svavari Steinsen.

55. mín: Staðan er 6:2 fyrir SR. Nú er aðeins fimm mínútur eftir og þó Daniel Kolar hafi verið að fá brottvísun hjá SR þá eiga Reykvíkingar sigurinn vísan.

49. mín: Staðan er 6:2 fyrir SR. Egill Þormóðsson SR fylgdi í kjölfarið af Svavari og Akureyringar eru því tveimur mönnum fleiri.

48. mín: Staðan er 6:2 fyrir SR. Svavar Steinsen SR var að fara út af í tvær mínútur og Rúnar Freyr Rúnarsson SA er nýkominn úr refsiboxinu.

45. mín: Staðan er 6:2 fyrir SR. Reykvíkingum tókst ekki að nýta sér liðsmuninn í þetta skiptið. Lars Foder hjá SA fékk einnig brottvísun og SR var því tveimur mönnum fleiri á ísnum í meira en mínútu.

41. mín: Staðan er 6:2 fyrir SR. Síðasti leikhlutinn er hafinn og Ingvar Þór Jónsson fyrirliði SA var að fá brottvísun. SA er því með tvo menn út af í 48 sekúndur.

40. mín: Mark! Staðan er 6:2 fyrir SR. Steinar Grettisson fékk víti þegar leiktíminn rann út í öðrum leikhluta. Hann tók vítið sjálfur og skoraði fyrir SA. SA skoraði því þó þeir væru með mann í kælingu og munu byrja síðasta leikhlutann manni færri.

40. mín: Staðan er 6:1 fyrir SR. Andri Mikaelsson SA var að fá tveggja mínútna brottvísun.

38. mín: Mark! Staðan er 6:1 fyrir SR. Arnþór Bjarnason kom ferskur inn á eftir kælinguna, hirti lausan pökk á vallarhelmingi SA og skoraði með góðu skoti. Svavar Steinsen fær skráða stoðsendingu.

35. mín: Staðan er 5:1 fyrir SR. Arnþór Bjarnason SR var að fá tveggja mínútna brottvísun.

33. mín: Mark! Staðan er 5:1 fyrir SR. Akureyringar eru komnir á blað en eiga enn mikla vinnu fyrir höndum ef þeir ætla að gera þennan leik spennandi. Andri Freyr Sverrisson kom pökknum á Andra Mikaelsson sem skaut en Ævar Þór Björnsson varði. Ævar náði ekki að halda pökknum og Andri fylgdi á eftir og potaði pökknum í netið.

30. mín: Mark! Staðan er 5:0 fyrir SR. Robbie Sigurðsson slapp einn fyrir vörn SA eftir stoðsendingu frá Birni Sigurðarsyni og skoraði. Ekki verður séð að Akureyringar eigi nokkra möguleika á því að koma sér inn í þennan leik.

29. mín: Mark! Staðan er 4:0 fyrir SR. Arnþór Bjarnason og Steinar Páll Veigarsson lögðu upp mark fyrir Gauta Þormóðsson sem komst einn á móti Sæmundi í marki SA og skoraði örugglega.

26. mín: Staðan er 3:0 fyrir SR. Svavar Steinsen leikmaður SR var að fá tveggja mínútna brottvísun. Aðeins önnur brottvísunin í leiknum.

25. mín: Staðan er 3:0 þegar um fimm mínútur eru liðnar af öðrum leikhluta. SR er með öll völd á ísnum.

20. mín: Staðan er 3:0 að loknum fyrsta leikhluta. Akureyringar eru ótrúlega daufir miðað við hversu mikið er í húfi hjá þeim. Ef fram heldur sem horfir verður um stórsigur SR að ræða. Í framhaldi af þriðja marki SR skipti SA um markvörð og Sæmundur Leifsson er nú kominn í markið. Hann stimplaði sig frábærlega inn í leikinn því Björn Róbert Sigurðarson slapp einn á móti honum þegar tíu sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Sæmundur sá við honum.

17. mín: Mark! Staðan er 3:0 fyrir SR. Guðmundur Björgvinsson skoraði með þrumuskoti af gríðarlega löngu færi. Hann var ekki kominn mikið lengra en rétt inn á vallarhelming Akureyringa og lítil hætta virtist vera á ferðum. Ómar Skúlason markvörður SA var með hönd á pökknum en það dugði ekki til að verja skotið sem var afar fast. Snorri Sigurbjörnsson átti stoðsendinguna.

12. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir SR. Björn Róbert Sigurðarson skoraði af stuttu færi. Daníel Steinþór Magnússon kom pökknum á Kristján Gunnlaugsson sem var fyrir aftan markið en tókst af harðfylgi að koma pökknum á Björn.

9. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir SR. Daniel Kolar skoraði með hnitmiðuðu skoti eftir góða rispu en hann fékk stoðsendingu frá Ævari Þór Björnssyni markverði. Markið kom þegar aðeins var ein sekúndu eftir af refsingunni hjá Gunnari Darra.

7. mín: Staðan er 0:0. Gunnar Darri Sigurðsson SA var að fá fyrstu tveggja mínútna brottvísun leiksins. SR-ingar voru eitraðir þegar þeir voru manni fleiri í síðasta leik á móti Birninum.

5. mín: Staðan er 0:0. Leikmenn liðanna eru að þreifa fyrir sér. Lars Foder fékk ágætt tækifæri fyrir SA eftir skyndisókn en Ævar Þór Björnsson varði frá honum.

Kl 20:10 Leikurinn er hafinn.

Kl 20:03 Pétur Maack landsliðsmaður hjá SR er ekki leikfær en hann meiddist í leiknum á móti Birninum í vikunni. Liðband slitnaði í öxlinni og Pétur verður því líklega á sjúkralistanum í nokkrar vikur.

Kl 19:50 Leikmenn eru að hita upp á ísnum en enn á eftir að bóna ísinn fyrir leik og hann byrjar því tæplega fyrr en klukkan 20:15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert