SR vann SA-Víkinga sem komast ekki í úrslit í fyrsta sinn

SR og SA eigast við í Laugardalnum.
SR og SA eigast við í Laugardalnum. mbl.is/Ómar

Skautafélag Reykjavíkur er búið að tryggja sér deildarmeistaratitil og þar með sæti í úrslitum ásamt heimaleikjarétt þegar það fær SA-Víkinga, sem er aðallið Akureyringa, í heimsókn í Laugardalinn í kvöld.  

Akureyringar renndu sér niðurlútir af ísnum á Skautahöllinni í Laugardal í  kvöld því eftir  6:5 tap fyrir Skautafélagi Reykjavíkur  eru vonir þeirra um að komast í úrslit Íslandsmótsins fyrir bí en það er í fyrsta sinn.

 Framan af  virtist sem það væri ekki nógu mikið í húfi fyrir Reykvíkinga en þeir tóku við sér í þriðja leikhluta.  Mörk SR gerðu Robbie Sigurdsson 3, Gauti Þormóðsson, Daniel Kolar, Egill Þormóðsson en  Lars Foder 2, Orri Blöndal, Björn Jakobsson, Guðmundur Guðmundsson fyrir Akureyringa.

Hinsvegar  verða SA-Víkingar að vinna SR í kvöld og reyndar líka næsta leik því Björninn hefur forskot með að mæta SR í úrslitum.  SR hefur unnið alla þrjá leikina í vetur gegn SA-Víkingum svo róðurinn gæti orðið þungur en allra veðra er von. Það yrði mikið áfall fyrir þetta lið Akureyrar að ná ekki úrslit því slíkt hefur ekki gerst frá því úrslitakeppnin var tekin upp.   Leiknum er lýst beint á mbl.is. 

3. leikhluti.   20. mín.  SR 6– SA-Víkingar 5.   Leik lokið.

3. leikhluti.   15. mín.  SR 6– SA-Víkingar 5.   Fimm mínútur eftir og Akureyringar verða að skora tvö mörk.

3. leikhluti.   12. mín.  SR 6– SA-Víkingar 5.   Akureyringar í vondum málum því þeim dugar ekki jafntefli.

3. leikhluti.   8. mín.  SR 5– SA-Víkingar 5.   Robbie skorar sitt annað mark og jafnar leikinn.  Nú er að duga eða drepast fyrir SA-Víkinga.

3. leikhluti.   5. mín.  SR 4– SA-Víkingar 5.   SR hleypir spennu leikinn á ný með marki Egils Þormóðssonar.

3. leikhluti.   2. mín.  SR 3– SA-Víkingar 5.   Þrír gegn fimm þraukuðu Akureyringar í eina og hálfa mínútu þrátt fyrir 3 skot Reykvíkinga á markið en það dugði ekki alveg því Robbie skoraði. 

3. leikhluti.   1. mín.  SR 2– SA-Víkingar 5.   Þriðji og síðasti leikhluti hafinn. 

2. leikhluti.   20. mín.  SR 2– SA-Víkingar 5.   Öðrum leikhluta lokið.  Akureyringar ráða ferðinni en eftir mistök við skiptingu misstu þeir mann útaf og verða því einum færri eina og hálfa mínútu í byrjun þriðja leikhluta og síðan annan til svo það verða fimm gegn þremur útileikmönnum eftir hléið.  SR átti 14 skot á mark SR-Víkinga gegn 13.

2. leikhluti.   17. mín.  SR 2– SA-Víkingar 5.   SR missti mann útaf og þétti vörnina en Björn Róbert komst inní sendingu, spretti upp völlinn en Ómar Skúlason markvörður varði vel.

2. leikhluti.   12. mín.  SR 2– SA-Víkingar 5.   Heimamenn hafa ekki erindi sem erfiði og Akureyringar skjótast í sókn þar sem Guðmundur Guðmundsson skorar eftir stoðsendingu Lars.

2. leikhluti.   11. mín.  SR 2– SA-Víkingar 4.   Heimamenn bíta aðeins frá sér og skjóta grimmt á markið en vörn gestanna var tilbúin fyrir áhlaupið.

2. leikhluti.   7. mín.  SR 2– SA-Víkingar 4.   Akureyringar að sækja í sig veðrið, Lars skorar aftur eftir stoðsendingu Ingþórs Árnason.

2. leikhluti.   6. mín.  SR 2– SA-Víkingar 3.   Aðeins að hitna í kolunum, menn reka brjóstkassann hvor í annan og áhorfendur hvetja þá.

2. leikhluti.   2. mín.  SR 2– SA-Víkingar 3.   Lars Foder kemur SA aftur yfir eftir stoðsendingu Andri Mikaelsson.

2. leikhluti.   1. mín.  SR 2– SA-Víkingar 2.   Daniel Kolar jafnar metinn eftir stoðsendingu Robbie Sigurdsson og Snorra Sigurbjörnsson.

2. leikhluti.   1. mín.  SR 1– SA-Víkingar 2.   Leikur hafinn á ný.

1. leikhluti.   20. mín.  SR 1– SA-Víkingar 2.   Fyrsta leikhluta lokið.  Eftir að menn höfðu þreifað fyrir sér dró til tíðinda með þremur mörkum á stuttum tíma.  Reykvíkingar hafa náð 13 skotum á markið og Akureyringar 8.

1. leikhluti.   18. mín.  SR 1– SA-Víkingar 2.   Allt í gangi, Björn Jakobsson skorar.

1. leikhluti.   17. mín.  SR 1– SA-Víkingar 1.   Adam var ekki lengi í Paradís því áður en mínúta var liðin skoraði Gauti Þormóðsson jafnaði eftir þunga sókn eftir stoðsendingu Daniel Kolar.  Gjaldið var hinsvegar dýrt því félagi þeirra fékk refsingu.

1. leikhluti.   16. mín.  SR 0– SA-Víkingar 1.   Orri Blöndal skorar með þrumuskoti eftir stoðsendingu frá Steinari Grettissyni.

1. leikhluti.   13. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Gríðarleg pressa Reykvíkinga, mikið kraðak upp við mark gestanna og nóg að gera hjá markverðinum.

1. leikhluti.   9. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Akureyringar nú einum færri og heimamenn sækja stíft.

1. leikhluti.   8. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Akureyringar fengu gott færi en skutu framhjá.

1. leikhluti.   7. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Daniel Kolar, sá þrautreyndi leikmaður úr SR, féll illa en er hjálpað á fætur.  Hann verður samt að fara útaf til að láta huga að sér.

1. leikhluti.   3. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Norðamenn ná frekar að herja á vörn Reykvíkinga en hlutirnir eru fljótir að gerast hér og fyrsta refsing komin þegar Guðmundur Björgvinsson úr SR fær að hvíla í tvær mínútur.

1. leikhluti.   1. mín.  SR 0– SA-Víkingar 0.   Leikur hafinn.

Rúmlega 60 áhorfendur eru komnir á pallana og fjölgar stöðugt enda má búast við hörkuleik.

Smá töf er á að leikurinn hefjist því það er verið að ísinn klárann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert