„Þetta var allt í lagi. Fínt svona miðað við mars,“ sagði Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari úr Ármanni eftir að hafa kastað 57,65 metra á sterku kastmóti í Bar í Svartfjallalandi í dag. Þetta var fyrsta mót keppnistímabilsins hjá Ásdísi.
Ásdís varð í 7. sæti af 19 keppendum á þessu móti en á því voru 12 keppendur sem kastað hafa yfir 60 metra, og meðal annars þær tvær sem lengst hafa kastað í ár.
„Vindurinn var pínulítið leiðinlegur en annars voru aðstæður mjög góðar. Ég er ánægð með að sjá hluti sem við höfum einbeitt okkur að ganga upp, og svo sá maður líka hvaða þætti þarf að laga. Ég hef ekkert getað kastað úti og hef bara verið að kasta í net innanhúss. Þess vegna klára ég köstin ekki nógu vel og þarf að fara betur inn í síðasta skrefið,“ sagði Ásdís sem ætlar því að reyna að kasta meira úti þegar hún kemur aftur heim.
„Snjór eða ekki snjór, maður verður bara að láta vaða. Það voru nokkur köst sem ég hefði viljað sjá fara lengra. Síðasta kastið var rosalega gott en ég missti spjótið aðeins svo það fór ekki eins langt og ég hefði viljað,“ sagði Ásdís sem hefur alveg jafnað sig af meiðslum og er bjartsýn á sumarið. Hún kemur nú heim til æfinga en fer í æfingabúðir til sólríkari landa í apríl.
„Ég er alveg heil núna og það er bara rosalega bjart framundan,“ sagði Ásdís við mbl.is í dag.