SA einum sigri frá titlinum

Frá leik liðanna í Egilshöll í kvöld.
Frá leik liðanna í Egilshöll í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Björninn og SA áttust við í öðrum úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitil kvenna í íshokkíi í Egilshöllinni klukkan 19:30. SA sigraði 5:1 og er 2:0 yfir í rimmunni um titilinn. Vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

Mörk/stoðsendingar Björninn: Steinunn Sigurgeirsdóttir 1/0, Flosrún Vaka Jóhannesdóttir 0/1.

Mörk/stoðsendingar SA: Þorbjörg Eva Geirsdóttir 1/0, Diljá Sif Björgvinsdóttir 1/0, Jónína Guðbjartsdóttir 1/0, Guðrún Marin Viðarsdóttir 1/0, Guðrún Blöndal 1/0, Birna Baldursdóttir 0/2, Silja Gunnlaugsdóttir 0/1, Sólveig Smáradóttir 0/1.

60. mín: Leik lokið. SA vann 5:1 stórsigur en liðið náði þó ekki að slíta sig frá Birninum fyrr en í síðasta leikhlutanum þó lokatölurnar séu stórar.

50. mín: Mark! Staðan er 5:1 fyrir SA. Akureyringar eru að reka smiðshöggið á dagsverkið. Guðrún Blöndal skoraði með hörkuskoti en stoðsendingar áttu Sólveig Smáradóttir og Birna Baldursdóttir.

49. mín: Mark! Staðan er 4:1 fyrir SA. Guðrún Marín Viðarsdóttir skoraði glæsilegt mark. Þrumaði pökknum í fjærhornið utan af hægri kanti. Bæði lið voru með leikmenn út af í refsingu þegar markið kom.

40. mín: Staðan er 3:1 fyrir SA fyrir síðasta leikhlutann. Björninn fór illa að ráði sínu því staðan gæti hæglega verið 2:2. Á 39. mínútu komst þeirra reyndasti leikmaður Flosrún Vaka Jóhannesdóttir ein á móti markverði SA Írisi Dröfn Hafberg og hafði nægan tíma til að athafna sig en Íris Dröfn varði glæsilega. Hálfri mínútu síðar skoraði SA sitt þriðja mark.

40. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir SA. Jónína Guðbjartsdóttir bætti við þriðja marki SA eftir skyndisókn en Birna Baldursdóttir átti stoðsendinguna.

32. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir SA. Akureyringum tókst að halda marki sínu hreinu á meðan liðið var með leikmann í skammarkróknum. Eftir að liðið varð fullskipað tókst Diljá Sif Björgvinsdóttur að ná frákasti fyrir fram mark Bjarnarins og koma SA yfir.

30. mín: Staðan er 1:1. Védís Valdimarsdóttir hjá SA var að fá fyrstu brottvísun leiksins.

27. mín: Mark! Staðan er 1:1. Akureyringar hafa jafnað leikinn. Eftir þunga sókn tókst Þorbjörgu Evu Geirsdóttir að pota pökknum í netið eftir stoðsendingu frá Silju Gunnlaugsdóttur.

20. mín: Staðan er 1:0 fyrir Björninn að loknum fyrsta leikhluta. Leikurinn hefur verið nokkuð jafn en marktækifærin hafa ekki verið mörg og dómararnir hafa sjaldan þurft að grípa inn í.

20. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Björninn. Heimaliðið er komið yfir í Egilshöllinni. Steinunn Sigurgeirsdóttir skoraði af stuttu færi eftir undirbúning frá Flosrúnu Vöku Jóhannesdóttur.

10. mín: Staðan er 0:0. Bæði lið hafa skapað sér ágæt færi en hefur ekki tekist að koma pökknum í netið.

Frá fyrsta leik liðanna á Akureyri.
Frá fyrsta leik liðanna á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert