„Ég sló heimsmet í báðum keppnunum sem ég tók þátt í í dag. Það voru réttstöðulyftur og handstöðuarmbeygjur,“ segir Annie Mist Þórisdóttir, sem keppir á Evrópumeistaramótinu í Cross-Fit sem hófst í dag í Kaupmannahöfn.
Mótið er það síðasta í heimsálfumótum, sem haldin hafa verið um allan heim undanfarið. Heimsmeistaramótið verður síðan haldið í Bandaríkjunum um miðjan júlí.
Annie segir mótið fjölmennt, en hún keppir líka í liðakeppni með liði sínu CrossFit Reykjavík. Liðinu hefur ekki gengið síður en Annie í einstaklingskeppninni, en það var í fyrsta sæti í þeim tveimur keppnum sem liðið tók þátt í í dag.
Mótinu lýkur á sunnudaginn og á morgun og hinn verður keppt í tveimur greinum. „Auðvitað stefnum við á að vinna,“ segir Annie Mist.
Þeir sem lenda í þremur efstu sætunum á Evrópumeistaramótinu í öllum flokkum fara á heimsmeistaramótið. „Það lítur allt út fyrir að við förum þangað,“ segir Annie Mist.