Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik og leikmaður Evrópu- og Þýskalandsmeistara Kiel, var kjörinn íþróttamaður ársins 2012 af Samtökum íþróttafréttamanna, en kjörinu var lýst fyrir stundu í 100 ára afmælishófi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands í Gullhömrum í Grafarholti.
Kvennalandslið Íslands í fimleikum var útnefnt lið ársins 2012 og Alfreð Gíslason hjá Kiel var valinn þjálfari ársins 2012 en Samtök íþróttafréttamanna veittu þau verðlaun í fyrsta skipti í kvöld.
Aron hlaut yfirburðarkosningu. Hann fékk 425 stig af 460 mögulegum. Ásdís Hjálmsdóttir, Íslandsmethafi í spjótkasti kvenna úr Ármanni, hafnaði í öðru sæti og sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson hafnaði í þriðja sæti. Lítill munur var á milli Ásdísar og Jóns Margeirs. Ásdís varð einnig í öðru sæti í kjörinu fyrir ári.
Þetta er í fyrsta sinn sem Aron verður efstur í kjöri á íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna. Hann er um leið níundi handknattleiksmaðurinn sem hreppir nafnbótina í 57 ára sögu kjörsins. Handknattleiksmenn hafa unnið nafnbótina í tólf skipti.
Alls hlutu 20 íþróttamenn stig í kjörinu að þessu sinni.
1. Aron Pálmarsson handbolti 425 stig
2. Ásdís Hjálmsdóttir frjálsíþróttir 279 stig
3. Jón Margeir Sverrisson íþróttir fatlaðra 267 stig
4. Gylfi Sigurðsson fótbolti 149 stig
5. Þóra B. Helgadóttir fótbolti 122 stig
6. Auðunn Jónsson kraftlyftingar 74 stig
7. Alfreð Finnbogason fótbolti 65 stig
8. Ásgeir Sigurgeirsson skotfimi 61 stig
9. Íris Mist Magnúsdóttir fimleikar 58 stig
10. Kári Steinn Karlsson frjálsíþróttir 55 stig
11. Guðjón Valur Sigurðsson handbolti 51 stig
12. Ragna Ingólfsdóttir badminton 27 stig
13. Jón Arnór Stefánsson körfubolti 25 stig
14. Aðalheiður Rósa Harðardóttir karate 7 stig
15.-17. Guðný Jenný Ásmundsdóttir handbolti 3 stig
15.-17. Sarah Blake Bateman sund 3 stig
15.-17. Alexander Petersson handbolti 3 stig
18.-19. Helena Sverrisdóttir körfubolti 2 stig
18.-19. Ólafur Stefánsson handbolti 2 stig
20. Aníta Hinriksdóttir frjálsíþróttir 1 stig
Aron lék stórt hlutverk hjá Kiel sem varð þýskur meistari í vor með fullu húsi stig, liðið varð einnig þýskur bikarmeistari og Evrópumeistari. Aron lék afar vel með íslenska landsliðinu á árinu, ekki síst á Ólympíuleikunum þar sem hann var valinn í úrvalslið leikanna en íslenska landsliðið hafnaði í 5. sæti.