60% hittni Jóns í þriggja stiga skotum

Jón Ólafur Jónsson í leik með Snæfelli.
Jón Ólafur Jónsson í leik með Snæfelli. mbl.is/Kristinn

Hittni Jón Ólafs Jónssonar, leikmanns Snæfells úr Stykkishólmi, hefur verið nánast makalaus fyrir utan þriggja stiga línuna í þeim ellefu leikjum sem hann hefur spilað í Dominos-deild karla á þessari leiktíð. Jón sem einnig er þekktur undir nafninu Nonni Mæju hefur hitt úr 60% þriggja stiga skota sinna en þumalputtareglan er sú að viðunandi sé fyrir góðar þriggja stiga skyttur að hitta úr liðlega 40% skota sinna.

Til eru dæmi um að körfuboltamenn sem spila fáar mínútur í leik nái hárri prósentu þegar kemur að hittni og þeir sem skjóta sjaldan á körfuna. Í tilfelli Jóns á það vitaskuld ekki við því hann er lykilmaður í öflugu liði Snæfells og hefur tekur mörg þriggja skot. Alls hefur Jón tekið 51 skot í fyrstu ellefu umferðunum og hefur 31 þeirra ratað ofan í körfuna. Jón hefur því tekið tæplega fimm þriggja stiga skot að meðaltali í leik í deildinni.

Ítarlega tölfræði er að finna um leikmenn deildarinnar á heimasíðu KKÍ. Þar kemur til dæmis fram að Jón Ólafur hóf tímabilið með látum og var með 81,3% hittni í þriggja stiga skotum í fjórum fyrstu leikjum tímabilsins sem fram fóru í október. Hann heldur uppteknum hætti á nýju ári og hefur hitt úr báðum þriggja stiga skotum sínum í janúar. Jón hittir öllu betur á körfurnar í Hólminum en þar er hittnin 64% en utan hans er hittnin 57,7%. kris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert