Svisslendingurinn Roger Federer er duglegur að kalla eftir auknu lyfjaeftirliti í tennisíþróttinni og léði máls á þessu í samtali við BBC í gær.
Federer segist vilja sjá svipuð vinnubrögð í lyfjaeftirlitinu hjá tennisfólki og hafa verið viðhöfð að undanförnu í hjólreiðunum.
Federer er 31 árs og einn sigursælasti tenniskappi heims en hann segir að blóðprufur séu teknar sjaldnar nú orðið en gert var á fyrri hluta hans ferils.
Nýjustu tölur sem til eru varðandi lyfjapróf í tennis eru fyrir árið 2011 en þá var tekin 131 blóðprufa og 2,019 þvagsýni.
„Ekki var tekin úr mér blóðprufa að loknu Opna ástralska mótinu og ég tjáði þeim sem sáu um lyfjaeftirlitið að það hafi komið mér mjög á óvart,“ sagði Federer meðal annars.
Federer segist gera sér grein fyrir því að lyfjaprófin séu kostnaðarsöm og hann segist vilja þann hluta hagnaðarins sem fæst af risamótunum fjórum til þess að fjármagna lyfjaprófin.