„Það var sannarlega erfitt að vera ekki á svellinu að berjast með strákunum. Það má segja að það hafi tekið meira á hjartað að fylgjast með á hliðarlínunni, maður vill vera með,“ sagði Birkir Árnason, fyrirliði Bjarnarins, eftir ósigurinn gegn SA Víkingum í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn, 4:0, en hann þurfti að sitja leikinn hjá vegna meiðsla.
„Mér fannst við standa í þeim stóran hluta leiksins en fór að skilja á milli í þriðja leikhluta og þá sást hverjir vildu þetta í rauninni meira,“ sagði Birkir, en lið hans fékk á sig þrjú mörk í þriðja og síðasta leikhluta eftir að leikurinn var jafn og spennandi framan af.
Leikirnir í úrslitarimmunni hafa verið gríðarlega skemmtilegir og hasarinn að sama skapi mikill. „Það er alltaf gaman að spila alvöru seríu með tveimur góðum liðum og þetta er bara góð auglýsing fyrir íþróttina. Eins og sést á áhorfendunum, það eru allir tilbúnir að koma og horfa á leik þar sem er háspenna frá fyrstu mínútu,“ sagði Birkir.
Björninn var ríkjandi Íslandsmeistari fyrir þetta tímabil en Birkir segir að liðið muni ekki hengja haus þrátt fyrir að ekki hafi tekist að verja titilinn. „Nú fara sumir okkar á heimsmeistaramótið eftir nokkrar vikur og svo verðum við bara að æfa stíft fyrir næsta vetur. Við munum taka okkur saman í andlitinu og koma enn sterkari til leiks á næsta ári, það er ekki spurning,“ sagði Birkir Árnason, fyrirliði Bjarnarsins, við mbl.is í leikslok.