Skautafélag Akureyrar varð í kvöld Íslandsmeistari í 16. skipti með því að sigra Björninn, 4:0, í hreinum úrslitaleik um Íslandsmeistaratitil karla í íshokkí í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld.
Ingvar Jónsson, þjálfari og leikmaður Akureyringa, kom þeim yfir á 11. mínútu og staðan var 1:0 þar til í þriðja leikhluta. Þá tók SA öll völd og Daninn Lars Foder tryggði liðinu Íslandsmeistaratitilinn með þremur mörkum.
60. LEIK LOKIÐ og SA er Íslandsmeistari.
57. MARK - 4:0. Og það er Lars Foder sem skorar sitt þriðja mark í þriðja leikhluta.
55. MARK - 3:0. Daninn Lars Foder skorar sitt annað mark eftir sendingu frá Birni Jakobssyni og titillinn blasir við SA.
47. MARK - 2:0. Góð sókn SA og Stefán Hrafnsson sendir á Lars Foder sem skorar annað mark liðsins.
41. Þriðji leikhluti er hafinn.
40. mín. - Þrátt fyrir harðan slag kom ekkert mark í öðrum leikhluta og staðan er enn 1:0 fyrir SA. Akureyringar voru fimm sinnum reknir af velli í leikhlutanum en Bjarnarmenn tvisvar.
38. mín. - Ekkert hefur enn verið skorað í öðrum leikhluta en baráttan er mikil.
20. mín. Fyrsta leikhluta lokið og staðan er 1:0 fyrir SA.
11. mín. MARK, 1:0. Ingvar Jónsson kemur SA yfir. Stefán Hrafnsson og Lars Foder lögðu markið upp.
10 mín. Björninn er tveimur færri á vellinum. SA ætti að geta nýtt sér það.
8. mín. Leikurinn er mjög líflegur og greinilegt að liðin ætla að bjóða upp á mikla skemmtun. Björninn hefur skotið mun meira á markið en SA átt hættulegri sóknir.
1. mín. Björninn byrjar með látum og á Daniel Kolar þrjú hörkuskot á upphafssekúndunum.
19.14 - Í leikjum liðanna í úrslitakeppninni hafa þau skipst á að hafa forustu og tölurnar á stigatöflunni hafa sveiflast mikið. Björninn hefur haft betur í fyrsta leikhluta leikjanna, samtals 6:4. Í öðrum leikhluta hafa Bjarnarmenn verið hvað sprækastir en staðan þar er 7:3 þeim í hag. SA Víkingar hafa hins vegar verið á flugi í lokaleikhlutum leikjanna, hafa þar 11:3 yfirburði. munar þar mest um 6:0 skorið úr öðrum leik liðanna í Egilshöll. Samtals hafa liðin skorað 34 mörk í leikjunum fjórum sem gera 8,5 mörk að meðaltali.
Reikna má með gríðarlegri stemningu á Akureyri og enda verður Skautahöllin troðfull.
Staðan í einvíginu er 2:2. Björninn vann fyrst 4:3 á Akureyri en SA vann síðan 8:4 í Egilshöllinni og 5:4 á Akureyri. Björninn jafnaði metin á sínum heimavelli með því að vinna fjórða leik liðanna 4:3.