Sigurður Sveinn: Losnið ekki við mig

SA-menn fagna sigrinum í kvöld.
SA-menn fagna sigrinum í kvöld. mbl.is/Þórir Tryggvason

Sigurður Sveinn Sigurðsson, leikmaður SA Víkinga, hefur marga fjöruna sopið í íshokkíinu en hann hefur leikið rúmlega 20 tímabil. Lið hans varð Íslandsmeistari eftir frækinn sigur á Birninum, 4:0 í hreinum úrslitaleik og er sá titill því enn ein rósin í hnappagat hans, sem er nú orðið ansi stórt eftir langan feril.

„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt, það er ekki hægt að segja annað. Þetta var gríðarlega skemmtilega rimma enda liðin alveg rosalega jöfn eins og leikirnir sýndu. Nú í síðasta leiknum skipti reynslan sköpum enda erum við vanir að fara í 5 leiki og það hjálpaði okkur mikið hvað við höfum reynslumikið lið,“ sagði Sigurður Sveinn við mbl.is eftir sigurinn í kvöld.

SA Víkingar misstu þjálfara sinn fyrir tímabilið og tók Ingvar Þór Jónsson, leikmaður liðsins, við stjórnartaumunum. Sigurður segir hann hafa unnið frábært starf.

„Ingvar stóð sig gríðarlega vel og við eigum honum mikið að þakka. Hann tók við erfiðu búi enda vorum við þjálfaralausir og misstum nokkra leikmenn, en hann kom inn í þetta af krafti, þjappaði mönnum saman og kláraði þetta allt til enda. Hann gerði þetta með glæsibrag sem spilandi þjálfari og árangurinn er eftir því. Við þekkjum hann vel og við berum mikla virðingu fyrir honum.“

Að lokum spurði blaðamaður Sigurð hvort hann ætli ekki að fara að hætta að spila enda nokkuð síðan fór að síga á síðari hluta ferilsins. Hann stóð ekki á svari. „Nei það er langt í að það gerist, það losnar sko enginn við mig strax,“ sagði Sigurður Sveinn Sigurðsson að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert