Óvæntur sigur á Áströlum eftir vítakeppni

Dennis Hedström var hetja Íslands og varði öll fjögur vítin …
Dennis Hedström var hetja Íslands og varði öll fjögur vítin frá Áströlum í vítakeppninni. mbl.is/Golli

Ísland og Ástralía áttust við í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Spartova-höllinni í Zagreb klukkan 11. Ísland sigraði 3:2 eftir framlengingu og vítakeppni. Staðan var 2:2 að loknum venjulegum leiktíma. Liðin fá fyrir það sitt hvort stigið og Ísland fær aukastig fyrir sigurinn. 

Sigurinn var óvæntur því Ástralía lék í B-riðli 1. deildar í fyrra. Ísland tapaði 1:4 fyrir Belgíu í gær og Ástralía tapaði fyrir Króatíu 3:1. Riðilinn er í uppnámi því Serbía vann Spán óvænt í gærkvöldi. Nú er orðið mun erfiðara að spá í spilin en áður en Íslendingar berjast fyrir sæti sínu í riðlinum og þessi leikur ætti að gefa liðinu aukið sjálfstraust. 

Mörk Íslands: Robin Hedström, Pétur Maack. 

Stoðsendingar: Emil Alengård 2, Jón Benedikt Gíslason, Björn Róbert Sigurðarson.

Maður leiksins hjá Íslandi: Pétur Maack.


Lið Íslands:

Markverðir: Dennis Hedström, Snorri Sigurbergsson.

Aðrir leikmenn: Björn Már Jakobsson, Ingvar Þór Jónsson, Robin Hedström, Jón Benedikt Gíslason, Emil Alengård, Orri Blöndal, Róbert Freyr Pálsson, Jónas Breki Magnússon, Pétur Maack, Björn Róbert Sigurðarson, Sigurður Óli Árnason, Brynjar Bergmann, Úlfar Jón Andrésson, Andri Már Mikaelsson, Jóhann Már Leifsson, Ingþór Árnason, Tómas Tjörvi Ómarsson, Egill Þormóðsson, Stefán Hrafnsson, Ólafur Hrafn Björnsson. 


Vítakeppni: 

3:2 fyrir Ísland. Leik lokið. Dennis varði fjórða vítið frá Áströlum og tryggði Íslandi sigur.

3:2 fyrir Ísland. Nú gerði Ísland á undan og Emil Alengård skoraði. 

2:2 Varið frá Jóni Gísla. Enn jafnt. Eitt víti eftir á hvort lið.

2:2 Dennis varði þriðja vítið. Frábær frammistaða. 

2:2 Robin lét einnig verja frá sér. Enn er jafnt.

2:2 Aftur varði Dennis víti. 

2:2 Markvörður Ástrala varði frá Emil.

2:2 Dennis varði fyrsta víti Ástrala.

65. mín: Staðan er 2:2 að lokinni framlengingu. Úrslitin verða útkjláð með vítakeppni. Þessari stöðu hefur karlalandsliðið ekki lent í í mörg ár á ísnum. Nú reynir á okkar góða markvörð Dennis Hedström. 

64. mín: Staðan er 2:2. Ein og hálf mínúta eftir. Nokkuð er dregið af mönnum að því er manni sýnist. 

61. mín: Staðan er 2:2. Orri átti fyrsta skotið í framlengingunni en varið frá honum.

60. mín: Venjulegum leiktíma er lokið. Staðan er 2:2. Ísland fær stig fyrir jafnteflið en nú verður framlengt þar sem aukastig er í boði. Framlengt verður í fimm mínútur og það lið sem nær að skora vinnur leikinn á gullmarki. Í framlengingu er fækkað á ísnum og því eru fjórir útileikmenn á móti fjórum. 

57. mín: Staðan er 2:2. Leikurinn er galopinn. Dennis varði vel frá Áströlunum og kollegi hans hjá Ástralíu varði vel frá Emil. 

53. mín: Staðan er 2:2. Leikurinn er nú í fullkomnu uppnámi en Ástralir eru hættulegri í augnablikinu. Emil átt reyndar eina af sínum flottu rispum en markvörðurinn sá við honum. 

49. mín: Mark! Staðan er 2:2. Ástralir jafna með marki af stuttu færi eftir vandræðagang í íslensku vörninni. Áströlsku leikmennirnir fagna gríðarlega og nú er stemningin með þeim. 

48. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Íslenska liðið er aftur fullskipað. Mjög mikilvægt að standa þetta af sér. 

46. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Orri var að fá brottvísun. Þetta gætu Ástralir nýtt sér. 

44. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ástralir reyna nú að ná einhverjum tökum á þessum leik sem eðlilegt er því þeir þurfa jú að skora. 

42. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Annar leikhluti er hafinn en ekkert kom út úr því fyrir íslenska liðið að vera manni fleiri en einu sinni skapaðist hætta upp við mark Ástralíu. 

40. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Öðrum leikhluta er lokið. Staðan er góð fyrir Ísland en margt getur gerst í íshokkí á 20 mínútum og því ekki tímabært að fagna. Fyrir þá sem ekki vita þá verður framlengt ef liðin eru jöfn að loknum 60 mínútum. 

40. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Dennis markvörður liggur á ísnum eftir harðan árekstur. Hann varði frá Ástralanum sem var í góðu færi eftir skyndisókn þegar 3 sekúndur eru eftir af leikhlutanum. Ástralinn lenti á Dennis án þess að hægja á sér og Dennis kastaði inn í markið og fékk andstæðinginn ofan á sig. Ástralinn fékk að sjálfsögðu brottvísun og Ísland byrjar því síðasta leikhlutann manni fleiri. 

36. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ekki tókst Íslendingum að skora og nú var Ingvar fyrirliði að fá brottvísun. Næstu tvær mínútur verða erfiðar. 

33. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Aftur fá Ástralir brottvísun. Þetta verða okkar menn að nýta. Næsta mark þessa leiks þarf að vera íslenskt. 

32. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Emil átti góða rispu og skot sem var varið og Egill var hársbreidd frá því að gera sér mat úr frákastinu.

30. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Eftir hraðan fyrsta leikhluta hefur leikurinn aðeins róast. Ástralir voru að fá brottvísun og Ísland á því „power play.“

25. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Íslenska liðinu tókst að standa það af sér að vera manni færri og fékk ekki á sig teljandi marktækifæri.

23. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Jónas Breki fékk brottvísun fyrir að því er virtist löglega tæklingu. Nú þurfa Íslendingar að standa vaktina í vörninni. 

20. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland að loknum fyrsta leikhluta. Mjög fjörugur fyrsti leikhluti og okkar menn hafa lagt sig alla fram. Sóknin er mun beittari og það hefur skilað fjölmörgum færum. Ástralir vita líklega ekki hvaðan á sig stendur veðrið en þeir stóðu ágætlega uppi í hárinu á besta liði riðilsins, Króatíu, í gær. 

18. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Gríðarleg barátta í íslenska liðinu. Allt annað að sjá til liðsins en í gær. Nú er mikilvægt að fara með forskot inn í fyrra leikhléð.

13. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Markvörður Ástrala varði vel frá bæði Jónasi Breka og Orra. Allt annað að sjá „power play“ íslenska liðsins í dag heldur en í gær. 

11. mín: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Ástralir voru að missa mann út af og Íslendingar eru manni fleiri næstu tvær mínúturnar. 

8. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Mörkunum rignir í upphafi þessa leiks. Jónas Breki fékk tveggja mínútna brottvísun og Ástralir voru snöggir að nýta sér það og minnkuðu muninn. Markið skoraði Cameron Todd. 

7. mín: Mark! Staðan er 2:0 fyrir Ísland. Íslendingar nýttu sér liðsmuninn fullkomlega. Pétur Maack skoraði úr mjög þröngu færi en hann skaut í markvörðinn og inn eftir sendingu frá Emil og Birni Róberti Sigurðarsyni.

5. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Íslendingar nýttu sér liðsmuninn strax. Robin Hedström skoraði fallegt mark úr fremur þröngu færi. Ástralir fá þá annan manninn inn á en Ísland er áfram manni fleira á ísnum. Emil Alengård og Jón Benedikt Gíslason áttu stoðsendingar. 

5. mín: Staðan er 0:0. Ástralía missti annan mann út af. Ísland er með fimm á móti þremur í rúma mínútu. Þetta verða okkar menn að nýta. 

4. mín: Staðan er 0:0. Ástralir missa mann út af í refsingu fyrir að brjóta á Birni Róberti sem þræddi sig skemmtilega framhjá varnarmönnunum. 

2. mín: Dave MacIsaac hefur gert nokkrar breytingar á línunum og fyrstu tvær línurnar ættu að vera aðeins jafnari. Fyrsta lína er nú Emil, Björn Róbert, Pétur, Ingvar og Róbert. Í gær var hún Emil, Jón Gísla, Robin, Ingvar og Björn Már. 

0. mín: Stuðningsmenn Ástrala eru með hrossabresti á áhorfendapöllunum. Ég efast um að slíkt að sést í íslensku íþróttalífi síðan á Melavellinum.

0. mín: Allir leikmenn Íslands eru leikfærir en þrír leikmenn glíma við meiðsli en þau hafa ekki komið í veg fyrir að þeir geti spilað. Um er að ræða þá Ingvar Þór Jónsson, Jón Benedikt Gíslason og Róbert Freyr Pálsson.

0. mín: Óvænt úrslit urðu í gærkvöldi þegar Serbía vann Spán 4:3. Þau úrslit benda til þess að Serbar séu sterkari en í fyrra og að Spánverjar séu veikari en í fyrra. Þá varð Spánn í öðru sæti í riðlinum en Serbía í fimmta sæti.  

Ástralía spilaði í 1. deild í fyrra en féll úr B-riðli niður í A-riðil 2. deildar. Fyrirfram eiga Ástralir því að vera talsvert sterkari en Íslendingar en þessar þjóðir hafa ekki mæst síðan 2007 og þá vann Ástralía með eins marks mun. 

Jón Benedikt Gíslason og Jónas Breki Magnússon.
Jón Benedikt Gíslason og Jónas Breki Magnússon. mbl.is/Golli
Robin Hedström skoraði fyrsta mark leiksins.
Robin Hedström skoraði fyrsta mark leiksins. mbl.is/Kristján Maack.
Robin Hedström og Emil Alengård. Ísland leikur í bláu í …
Robin Hedström og Emil Alengård. Ísland leikur í bláu í dag. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert