Vítakeppni þurfti til að knýja fram úrslit hjá Íslendingum og Áströlum í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkí í Króatíu í dag og náði mbl.is vítakeppninni á meðfylgjandi myndskeiði.
Staðan að loknum venjulegum leiktíma og framlengingu var 2:2 og var þá gripið til vítakeppni. Þar reyndist markvörðurinn Dennis Hedström bjargvættur Íslands og varði allar fjórar vítaspyrnur Ástrala. Emil Alengård skoraði úr síðasta víti Íslands á snyrtilegan hátt þar sem hann plataði markvörðinn illa.
Emil tók fyrsta og síðasta víti Íslands en hin tvö tóku þeir Robin Hedström og Jón Benedikt Gíslason.