Ólafur Hrafn Björnsson var valinn maður leiksins eftir 6:3 sigurinn á Spánverjum í Zagreb í dag en hann skoraði tvö mörk í leiknum og lagði upp eitt að auki.
Með sigrinum er ljóst að Ísland er öruggt um áframhaldandi sæti í þessum sterkari riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkíi að ári og verður því áfram á meðal 33 bestu þjóða heims í íþróttinni þó að landsliðið hafi ekki leikið sinn fyrsta leik fyrr en árið 1999.
Ólafur sagði að sigurinn væri alveg jafn sætur og hann hljómaði. „Við áttum góða möguleika á móti þessu liði og kláruðum þetta bara," sagði Ólafur í samtali við mbl.is að leiknum loknum.
Mörkin hans voru þau fyrstu í keppninni að þessu sinni en Ólafur var að spila sinn 14. A-landsleik. „Þegar manni finnst að maður eigi að gera meira fyrir liðið þá er sætt þegar maður loksins gerir það. Það er bara sætt að vinna og það er aðalmálið,“ sagði Ólafur ennfremur.