Ísland og Spánn áttust við í mjög mikilvægum leik í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramóts karla í íshokkíi í Zagreb í Króatíu klukkan 11. Ísland sigraði 6:3 og tryggði sæti sitt í þessum sterkari riðli deildarinnar að ári. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.
Ísland er í fjórða sæti riðilsins með fimm stig en Spánn er án stiga eftir fjóra leiki. Spánverjar geta því ekki náð Íslendingum að stigum. Takist Íslandi að vinna Serbíu á morgun þá vinna Íslendingar til bronsverðlauna í mótinu.
Mörk Íslands: Ólafur Hrafn Björnsson 2, Björn Róbert Sigurðarson, Egill Þormóðsson, Robin Hedström, Orri Blöndal.
Stoðsendingar: Emil Alengård 2, Brynjar Bergmann, Orri Blöndal, Jóhann Már Leifsson, Robin Hedström, Jón Benedikt Gíslason, Ólafur Hrafn Björnsson.
Maður leiksins hjá Íslandi: Ólafur Hrafn Björnsson.
Lið Íslands:
Markverðir: Dennis Hedström, Snorri Sigurbergsson.
Aðrir leikmenn: Björn Már Jakobsson, Ingvar Þór Jónsson, Robin Hedström, Jón Benedikt Gíslason, Emil Alengård, Orri Blöndal, Róbert Freyr Pálsson, Jónas Breki Magnússon, Pétur Maack, Björn Róbert Sigurðarson, Sigurður Óli Árnason, Brynjar Bergmann, Úlfar Jón Andrésson, Andri Már Mikaelsson, Jóhann Már Leifsson, Ingþór Árnason, Tómas Tjörvi Ómarsson, Egill Þormóðsson, Stefán Hrafnsson, Ólafur Hrafn Björnsson.
60. mín.: Leiknum er lokið. Ísland sigraði 6:3. Sætið í riðlinum að ári er tryggt en Spánverjar eru í erfiðum málum og þurfa að vinna Ástralíu á morgun.
60. mín.: Mark! Staðan er 6:3 fyrir Ísland. Spánverjar tóku áhættu og tóku markvörðinn út af til að auka sóknarþungann. Orri Blöndal stráði salti í sárið og skoraði yfir endilangan völlinn eða svo gott sem.
58. mín.: Mark! Staðan er 5:3 fyrir Ísland. Sigurinn svo gott sem í höfn. Robin Hedström skoraði annað mark sitt í leiknum. Hann hafði heppnina með sér en pökkurinn hafði viðkomu í varnarmanni á leiðinni í netið. Ólafur Hrafn Björnsson átti stoðsendinguna.
55. mín.: Staðan er 4:3 fyrir Ísland. Ég er orðinn bjartsýnn á að fá alla vega stig út úr þessari viðureign. Ísland er fimm mínútum frá sínum fyrsta sigri á Spáni í íshokkíi karla.
52. mín.: Staðan er 4:3 fyrir Ísland. Orri fær brottvísun. Veit nú ekki hvort þessi var verðskulduð. Leikmenn eru farnir að þreytast og nú reynir á.
50. mín.: Mark! Staðan er 4:3. Úrslitin eru ekki ráðin. Spánverjar minnka muninn eftir skyndisókn. Ekki ólíklegt þriðja marki þeirra. Okkar menn þurfa að halda haus.
46. mín.: Mark! Staðan er 4:2 fyrir Ísland. Ólafur Hrafn Björnsson er kominn í stuð. Hann slapp aleinn inn fyrir vörnina og skoraði. Stoðsendingar áttu Robin Hedström og Jón Benedikt Gíslason.
45. mín.: Mark! Staðan er 3:2 fyrir Ísland. Ólafur Hrafn Björnsson komst í gott færi og skoraði. Þetta var mikilvægt. Emil Alengård og Jóhann Már Leifsson áttu stoðsendingu.
44. mín.: Staðan er 2:2. Spánverjar eru nú manni færri og Pétur Maack átti skot í stöngina. Þriðja stangarskot Íslands í leiknum.
41. mín.: Staðan er 2:2. Síðasti leikhlutinn er hafinn. Jóhann átti skot í utanverða stöngina úr þröngu færi.
40. mín.: Staðan er 2:2 fyrir síðasta leikhlutann. Úlfar fékk brottvísun þegar rúmar 2 mínútur voru eftir af öðrum leikhluta og Spánverjar voru hættulegir en tókst ekki að skora. Þessi leikur getur farið á hvorn veginn sem er. Takist Íslendingum að sigra þá hafa þeir tryggt að Spánverjar geta ekki náð þeim að stigum í mótinu.
37. mín.: Mark! Staðan er 2:2. Spánverjar jafna. Þeir voru með pökkinn fyrir aftan markið og náðu að koma honum fyrir þar sem skorað var af stuttu færi.
32. mín.: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Nú misstu Spánverjar mann út af og Ísland fær því power play í annað skiptið í leiknum.
30. mín.: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Þegar rúmar 40 sekúndur eru eftir af refsingu Jónasar þá er einn úr hvoru liði sendur út af. Emil hjá Íslendingum.
29. mín.: Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Jónas Breki fékk brottvísun. Nú þurfa íslensku leikmennirnir að halda einbeitingu.
28. mín.: Staðan er 2:1. Spánverjar reyna nú að sækja eins og þeir geta. Dennis varði glæsilega eftir þunga sókn rétt í þessu.
24. mín.: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Markið kom eftir skyndisókn. Brynjar Bergmann náði góðum spretti og komst einn á móti markverði sem varði frá honum en Egill Þormóðsson fylgdi vel á eftir, náði frákastinu og skoraði.
21. mín.: Staðan er 1:1. Íslenska liðið er orðið fullskipað. Spánverjum tókst ekki að nýta sér stöðuna 5 á móti 3 í 2 mínútur sem er afar jákvætt.
20. mín: Staðan er 1:1 að loknum fyrsta leikhluta. Íslendingar lentu í erfiðri stöðu undir lok leikhlutans þegar Jónas Breki og Úlfar Jón voru reknir út af. Félögum þeirra tókst að verjast í 1 mínútu og 20 sekúndur áður en leikhlutinn kláraðist. Spánverjar verða því tveimur fleiri fyrstu 40 sekúndur annars leikhluta.
18. mín.: Mark! Staðan er 1:1. Íslendingar voru ekki lengi að kvitta. Spánn missti mann út af í brottvísun í fyrsta skipti í leiknum og okkar menn nýttu sér það. Björn Róbert Sigurðarson skoraði úr frekar þröngu færi eftir stoðsendingar frá Orra Blöndal og Emil Alengård. Fyrsta mark Björns fyrir A-landsliðið.
16. mín.: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Spán. Slysalegt mark eftir skyndisókn. Skot utan af vinstri kanti sem virtist sakleysislegt en endaði í markinu.
15. mín.: Staðan er 0:0. Stangarskot. Spánverjar sluppu með skrekkinn. Björn Róbert átti gott skot af löngu færi sem hafnaði í stönginni. Áður höfðu Jón Gísla og Ingvar átt ágætar tilraunir.
9. mín.: Staðan er 0:0. Spánverjar voru nálægt því að skora. Dennis var kominn úr jafnvægi og markið var nánast opið en Andra Má og Róberti tókst einhvern veginn að komast fyrir skottilraun Spánverjans. Frábær varnarvinna hjá þeim.
7. mín: Staðan er 0:0. Orri Blöndal fær brottvísun. Liðin fara frekar varlega inn í þennan leik og lítið um góð færi. Ólafur Hrafn átti ágæta tilraun en varið frá honum.
4. mín.: Staðan er 0:0. Íslenska liðið stóð þetta af sér. Tvær hörkutæklingar í upphafi leiks. Jón Gísla fékk eina á sig og Robin tæklaði einn Spánverja sem lá eftir.
2. mín.: Staðan er 0:0. Robin fær tveggja mínútna brottvísun.
1. mín.: Leikurinn er hafinn. Ísland spilar í hvítu búningunum í dag.
0. mín.: Þegar riðillinn var spilaður í Reykjavík í fyrra þá var spænski markvörðurinn valinn besti markvörður mótsins en hann er ekki með spænska liðinu hér í Zagreb og er spænska liðið talsvert veikara fyrir vikið.
0. mín.: Allir leikmenn Íslands eru leikfærir og á skýrslu. Líkur er á því að Pétur Maack hafi kviðslitnað í öðrum leiknum á móti Ástralíu en hann stefnir að því að spila þá leiki sem eftir eru. Ingvar Þór Jónsson hefur spilað leikina með gat á lunga, Jón Benedikt Gíslason tognaður á læri og Róbert Freyr Pálsson varð fyrir meiðslum í úrslitakeppninni heima. Þeir hafa allir getað beitt sér og stefna að því að klára mótið en meiðslin eru þó eitthvað að trufla þá.
0. mín.: Plötusnúðurinn í Spartova-höllinni spilar að venju How do you like Iceland með Baggalúti og Til hamingju Ísland með Sylvíu Nótt fyrir leiki Íslands. Ekki hef ég komist að því hvernig hann datt niður á þessi tilteknu lög en mig grunar að íslensku landsliðsmennirnir vilja frekar hita upp við þyngri tónlist.