Bronsið í höfn eftir 5:1 sigur á Serbum

Emil Alengård og Ingvar Þór Jónsson.
Emil Alengård og Ingvar Þór Jónsson. mbl.is/Golli

Ísland og Serbía áttust við í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í íshokkí klukkan 14:30 að íslenskum tíma. Var þetta síðasti leikur Íslands í keppninni og tryggði liðið sér bronsverðlaun með stórsigri 5:1. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is. 

Mörk Íslands: Björn Róbert Sigurðarson, Robin Hedström, Andri Már Mikaelsson, Ólafur Hrafn Björnsson, Jón Benedikt Gíslason.

Stoðsendingar: Róbert Freyr Pálsson 2, Pétur Maack, Emil Alengård, Ólafur Hrafn Björnsson, Jón Benedikt Gíslason, Robin Hedström, Jóhann Már Leifsson.

Maður leiksins hjá Íslandi: Andri Már Mikaelsson.

Lið Íslands:

Markverðir: Dennis Hedström, Snorri Sigurbergsson.

Aðrir leikmenn: Björn Már Jakobsson, Ingvar Þór Jónsson, Robin Hedström, Jón Benedikt Gíslason, Emil Alengård, Orri Blöndal, Róbert Freyr Pálsson, Jónas Breki Magnússon, Pétur Maack, Björn Róbert Sigurðarson, Sigurður Óli Árnason, Brynjar Bergmann, Úlfar Jón Andrésson, Andri Már Mikaelsson, Jóhann Már Leifsson, Ingþór Árnason, Tómas Tjörvi Ómarsson, Egill Þormóðsson, Stefán Hrafnsson, Ólafur Hrafn Björnsson. 

60. mín: Leiknum er lokið með 5:1 sigri Íslands. Íslensku landsliðsmennirnir fagna gríðarlega enda vinna þeir til bronsverðlauna og hafa náð sínum besta árangri frá upphafi. 

60. mín: Staðan er 5:1. Liðin fá sitt hvora brottvísunina þegar 8 sekúndur eru eftir og það skiptir náttúrlega engu máli. 

59. mín: Mark! Staðan er 5:1 fyrir Ísland. Jón Benedikt Gíslason slapp aleinn inn fyrir vörnina og skoraði örugglega eftir stoðsendingar frá Jóhanni Má Leifssyni og Róberti Frey Pálssyni. Jón Gísla er að spila sinn 65. landsleik í dag.

57. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Serbar fá brottvísun. Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar. Bronsið verður Íslendinga. 

54. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Fólskulegt brot á Andra upp við battann og Serbinn fékk brottvísun. Andri lá eftir í nokkrar sekúndur en skautaði síðan út af. 

51. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Pétur var aftur rekinn út af. Smá möguleiki fyrir Serba að komast aftur inn í leikinn. 

50. mín: Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Aftur var Serbi rekinn út af en Íslendingum tókst ekki að skora í þetta skiptið. Allt er þetta þó á réttri leið og Ísland er tíu mínútum frá verðlaunum í þessu móti sem byrjaði á slæmu tapi gegn Belgum.

48. mín: Mark! Staðan er 4:1 fyrir Ísland. Serbi fékk brottvísun og íslensku leikmennirnir voru ekki nema tæpa hálfa mínútu að nýta sér liðsmuninn. Robin Hedström fékk pökkinn frá Róberti Frey og kom honum á Ólaf Hrafn Björnsson sem snéri bakið í markið en snéri sér snöggt við og skoraði með lúmsku skoti. 

46. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Serbar með skot í slána. Heppnin með Íslendingum. Hálf mínúta þar til Pétur kemur inn á. 

44. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Pétur fær brottvísun. Nú þurfa okkar menn að halda einbeitingu. 

41. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Síðasti leikhlutinn er hafinn. 

40. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland að loknum tveimur leikhlutum. Ísland hefur unnið þá báða og er á ágætri leið með að tryggja sér bronsverðlaun. Ekki er þó hægt að afskrifa Serbana strax en þeir skoruðu þrisvar á jafn mörgum mínútum gegn Króötum í gærkvöldi. Ég hef það nú samt á tilfinningunni að verði næsta mark íslenskt að þá muni Serbar ekki vinna þann mun upp. 

37. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Jónas Breki með óþarfa brot úti á miðjum ís og Íslendingar eru leikmanni færri næstu tvær mínúturnar. 

34. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Serbar voru aðgangsharðir upp við mark Íslands en Dennis tókst einhvern veginn að halda pökknum fyrir utan marklínuna. 

31. mín: Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Þessi leikur er vægast sagt skemmtilegur í augnablikinu. Síðan að Ísland skoraði þriðja markið hafa Íslendingar fengið tvö mjög góð færi og Serbar eitt. Jóhann og Björn Róbert voru þar á ferðinni. 

30. mín: Mark! Staðan er 3:1 fyrir Ísland. Serbar voru enn vankaðir eftir síðasta mark og Andri Már Mikaelsson refsaði þeim grimmilega. Fékk pökkinn úti á hægri kantinum og keyrði upp að markinu og skoraði með skoti í fjærhornið. 

29. mín: Mark! Staðan er 2:1 fyrir Ísland. Eftir heldur rólegar mínútur að hálfu íslenska liðsins þá kom íslenskt mark. Robin Hedström skoraði eftir undirbúning Ólafs Hrafns Björnssonar og Jóns Benedikts Gíslasonar. 

29. mín: Staðan er 1:1. Ísland komst í skyndisókn. Pétur sendi góða sendingu á Emil sem þrumaði á markið en markvörðurinn varði frá honum. Gott færi. 

23. mín: Mark! Staðan er 1:1. Hrikaleg byrjun á öðrum leikhluta. Serbar skoruðu úr skyndisókn. Löng sending fram sem Ingvar rétt missti af. Sóknarmaðurinn slapp inn fyrir hann og skoraði af yfirvegun. 

21. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Annar leikhluti er hafinn.

20. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland að loknum fyrsta leikhluta. Allt á áætlun enn sem komið er. Ísland slapp með skrekkinn á síðustu sekúndu leikhlutans en þá fengu Serbar dauðafæri en Dennis var vandanum vaxinn í markinu. Heilt yfir var þetta fremur erfiður leikhluti fyrir íslenska liðið enda fékk það þrjár brottvísanir og það verður vafalaust gott fyrir strákana að komast inn í klefa og fara yfir stöðuna.

17. mín: Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Einn Serbinn tók dýfu og fiskaði þannig Ólaf Hrafn út af í tvær mínútur en Íslendingar stóðu það af sér. Emil fékk meira að segja gott færi eftir skyndisókn en markvörðurinn sá við honum. 

15. mín: Mark! Staðan er 1:0 fyrir Ísland. Pétur Maack sendi pökkinn á galdramanninn Emil Alengård sem prónaði sig í gegnum nokkra varnarmenn og komst að marki Serba. Skot Emils var varið en pökkurinn hrökk til Björns Róberts Sigurðarsonar sem snéri baki í markið en snéri sér við og mokaði pökknum yfir línuna. Hans annað mark í mótinu og fimmta stoðsending Emils. 

14. mín: Staðan er 0:0. Dennis varði einu sinni frábærlega á meðan íslenska liðið var í penalty kill og tókst að halda markinu hreinu. 

12. mín: Staðan er 0:0. Egill fékk brottvísun en hann hindraði Serba í skyndisókn. Dennis varði frá þeim úr dauðafæri. Fá slík færi hafa litið dagsins ljós enn sem komið er. Björn Róbert fékk gott færi en skaut yfir markið. 

6. mín: Staðan er 0:0. Jónas Breki fékk ódýra brottvísun en Serbar gerðu ekki mikinn usla á meðan hann var út af.

2. mín: Staðan er 0:0. Leikurinn er hafinn. Íslendingar leika í hvítu eins og í sigurleikjunum tveimur hingað til.

0. mín: Fyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson leikur í dag sinn 70. A-landsleik fyrir Ísland og er sá leikjahæsti frá upphafi. Robin Hedström leikur sinn 30. A-landsleik.  

0. mín: Ísland vann Serbíu í fyrsta skipti í Laugardalnum í fyrra 5:3. Serbía komst þá í 2:0 en Ísland skoraði næstu fimm mörk. Mörk Íslands skoruðu Birkir Árnason, Pétur Maack, Emil Alengård, Andri Mikaelsson, Jón Benedikt Gíslason.

0. mín: Serbía er með sex stig eftir sigra á Ástralíu og Spáni en liðið tapaði fyrir Belgíu og Króatíu. Ísland er með fimm stig og er með sömu útkomu nema að Ísland vann Ástralíu eftir framlengingu og vítakeppni og fékk því tvö stig fyrir þann sigur en ekki þrjú. 

Andri Már Mikaelsson var valinn besti maður Íslands í leiknum. …
Andri Már Mikaelsson var valinn besti maður Íslands í leiknum. Hér fagnar hann marki ásamt Ingvari Þór Jónssyni og Orra Blöndal. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
Robin Hedström (fyrir miðju) skoraði þriðja mark sitt í keppninni …
Robin Hedström (fyrir miðju) skoraði þriðja mark sitt í keppninni og kom Íslandi yfir 2:1. mbl.is/Golli
Landsliðsmennirnir í leiknum á móti Spáni.
Landsliðsmennirnir í leiknum á móti Spáni. mbl.is/Kristján Maack.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert