Ingvar: Þvílíkt sem ungu strákarnir stóðu sig vel

Landsliðsfyrirliðinn Ingvar Þór Jónsson lék í dag sinn 70. A-landsleik fyrir Ísland í íshokkí og gat fagnað að honum loknum því Ísland skellti Serbíu 5:1. 

Ingvar sagðist núorðið einungis reyna að styðja við ungu strákana ásamt hinum eldri leikmönnum liðsins og sagðist vera í hálfgerðu aukahlutverki. 

Niðurstaðan er sú að Ísland náði þriðja sæti í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins með átta stig þrátt fyrir slæmt 1:4 tap í fyrsta leik á móti Belgum. Ísland vann Ástralíu, Spán og Serbíu en tapaði fyrir heimaliðinu Króötum. 

„Auðvitað hefðum við viljað standa okkur betur gegn Belgum og við vorum bara nokkuð þéttir gegn Króötum í tvær lotur. En þetta eru flott lið. Ef við lítum á Króata þá eru þarna menn sem hafa spilað í bestu deild í heimi. Þarna eru atvinnumenn og auðvitað eiga þeir að vinna okkur í hvert einasta skipti sem þeir mæta okkur. Að standa í þeim og ógna þeim er bara mjög gott og það kemur að því að við tökum þá. Þeir mega gæta sín,“ sagði Ingvar Þór meðal annars í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert