Jón Gísla: Nú er maður einn af þeim hægari

Jón Benedikt Gíslason skoraði og gaf stoðsendingu í sínum 65. A-landsleik fyrir Ísland í dag þegar íshokkílandsliðið skellti Serbíu 5:1 í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Zagreb í Króatíu í dag. 

Jón þurfti að bíða eftir marki þar til á 59. mínútu í síðasta leiks og sagði það hafa verið ánægjulegt að ná að skora og bæta fyrir það að hafa brennt af víti í vítakeppninni á móti Ástralíu fyrr í mótinu. Þess má geta að Jón tognaði á læri rétt fyrir mótið en náði að spila alla fimm leikina.

Þó Jón sé einungis 29 ára gamall hefur hann verið í landsliðinu frá aldamótum. Hann segir mikinn mun vera á landsliðinu þá og nú enda var íslenska landsliðið ekki sett á laggirnar fyrr en 1999 og deildakeppnin hófst ekki á Íslandi fyrr en 1991.

„Við erum búnir að fara upp um tvær deildir og munurinn á liðinu er ótrúlegur. Þegar ég kom inn í þetta þá var ég með þeim fljótari í liðinu en nú er maður bara einn af þeim hægari. Það er þvílíkur munur,“ sagði Jón meðal annars. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert