Þegar farið er í einn mikilvægasta landsleik karla í knattspyrnu frá upphafi, gegn Slóvenum á Laugardalsvellinum á föstudagskvöldið í næstu viku, hefði verið gott fyrir landsliðsþjálfarann að hafa úr öllum bestu leikmönnum þjóðarinnar að velja.
Því miður er það ekki svo og Lars Lagerbäck verður án þriggja öflugra lykilmanna. Gylfi Þór Sigurðsson og Jóhann Berg Guðmundsson eru í banni og Grétar Rafn Steinsson er meiddur.
Framlag Gylfa í þessari undankeppni HM hefur verið hreint magnað. Aukaspyrnumörk hans hafa lagt grunninn að glæsilegum útisigrum gegn Albaníu og Slóveníu, og svo skoraði hann líka seinna markið gegn þeim síðarnefndu í Ljubljana í mars.
Jóhann Berg hefur ekki endilega verið í byrjunarliði hjá Lagerbäck en reynst góður valkostur. Svíinn skellti honum inná í hálfleik í Ljubljana þegar Ísland var undir og kantmaðurinn snöggi breytti sóknarleik liðsins umtalsvert í seinni hálfleiknum.
Grétar Rafn er óumdeilanlega besti hægri bakvörður landsins með gífurlega reynslu úr ensku úrvalsdeildinni. Birkir Már Sævarsson hefur þó leyst hann af með ágætum og Helgi Valur Daníelsson er líka valkostur í stöðuna gegn Slóvenum en hann leikur sem slíkur með AIK um þessar mundir og hefur af og til verið þar á sínum ferli.
Fótboltinn er einu sinni þannig að maður kemur í manns stað. Kári Árnason og Rúrik Gíslason koma aftur inní hópinn eftir að hafa verið í banni í Ljubljana og gefa Lagerbäck fleiri kosti í vörn og sókn.
Það þyrfti ekki að koma á óvart þó Kári leysi Sölva Geir Ottesen af sem miðvörður. Sölvi hefur aðeins spilað tvo alvöruleiki á árinu, landsleikinn í Ljubljana og einn deildaleik með FC Köbenhavn.
Ragnar Sigurðsson verður án efa í hinni miðvarðarstöðunni áfram eins og í öðrum leikjum Íslands í keppninni, og hann lék afar vel með dönsku meisturunum á tímabilinu sem var að ljúka.
Ítarlegri fréttaskýringu um landsliðsval Lars Lagerbäcks fyrir leikinn gegn Slóvenum 7. júní má sjá í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.