Hin 17 ára gamla Aníta Hinriksdóttir úr ÍR, eini Íslendingurinn sem náð hefur lágmarki fyrir HM fullorðinna í frjálsum íþróttum, hefur tilkynnt að hún muni ekki nýta sér keppnisréttinn. Mótið fer fram í Moskvu í ágúst en í júlí eru tvö stórmót á dagskrá hjá Anítu með viku millibili; HM 17 ára og yngri í Úkraínu og EM 19 ára og yngri á Ítalíu.
„Henni er sýndur mikill skilningur með þetta. Það er mikið um að vera í hennar aldursflokki í sumar og þar á hún mikla möguleika. Hún stefnir hátt á þessum unglingamótum á meðan hún yrði farþegi á HM. Hún er ekki komin svo langt að geta farið að berjast um sæti þar en er með þeim allra fremstu í unglingaflokkum. Þetta er flott ákvörðun hjá henni,“ sagði Þórey Edda Elísdóttir, verkefnisstjóri FRÍ, við Morgunblaðið í gær. Þess má geta að 17 ára keppendur mega ekki einu sinni taka þátt í öllum greinum á HM fullorðinna, þótt vissulega megi þeir keppa í 800 metra hlaupi.
Sjá nánar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.