Dregið var í riðla í Meistaradeild Evrópu í handknattleik í gær en nokkur Íslendingalið voru í pottinum.
Þýskalandsmeistarar Kiel, sem Alfreð Gíslason þjálfar og þeir Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson leika með, lentu í riðli með pólska liðinu Kielce sem Þórir Ólafsson leikur með og þá er spænska liðið Atlético Madrid einnig í riðlinum.
Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í Rhein-Neckar Löwen, þar sem Alexander Petersson, Stefán Rafn Sigurmannsson og Rúnar Kárason eru á mála hjá, eru í sannkölluðum austantjaldsriðli en í riðlinum eru meðal annars RK Zagreb frá Króatíu, Vézsprém frá Ungverjalandi, St.Petersburg frá Rússlandi og Celje frá Slóveníu.
Paris Handball sem Róbert Gunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson spila með dróst í riðil með Spánarmeisturum Barcelona og Flensburg, lið Ólafs Gústafssonar, etur meðal annars kappi við dönsku meistarana í Álaborg. Hamburg á titil að verja en liðið þarf að mæta lærisveinum Dags Sigurðssonar í Füchse Berlin um réttinn til að komast í riðlakeppnina.
Riðlarnir líta þannig út:
A-riðill: Vészprém, Zagreb, Petersburg, Rhein-Neckar Löwen, Celje og Banja Luka/Novi Sad/Hard/Zaporoschye.
B-riðill: Kiel, Kielce, Atlético Madrid, Kolding, Dunkerque og Constanta/Porto/Elverum/Volendam.
C-riðill: Barcelona, Paris Handball, Vardar Skopje, Wacker Thun og Minsk/Presov/Istanbul/Athen
Montpellier/Szeged/Plock/Metalurg.
D-riðill: Álaborg, Velenje, Naturhouse, Flensburg og Drott eða Esch og Füchse Berlin eða Hamburg. gummih@mbl.is