„Við munum spila fyrir fjölskyldur okkar, vini en umfram allt fyrir brasilísku þjóðina,“ sagði brasilíska ungstirnið Neymar við fréttamenn í gær en hann verður í eldlínunni með Brasilíumönnum annað kvöld þegar þeir etja kappi við heims- og Evrópumeistara Spánverja í úrslitaleik Álfukeppninnar í knattspyrnu á Maracana-vellinum í Ríó.
Neymar, sem á dögunum samdi við Barcelona og mætir því nokkrum af nýjum samherjum sínum, segist ætla að gera allt sem hann getur til að hjálpa Brasilíumönnum að vinna Álfukeppnina í þriðja sinn í röð en Spánverjarnir eru ósigraðir í 29 leikjum í röð og þeir vilja bæta enn einum titlinum í safn sitt en þeir eru ríkjandi heims- og Evrópumeistarar.
„Ég held að þetta verði frábær leikur tveggja flottra liða sem hafa á að skipa mörgum frábærum leikmönnum. Ég vona bara að ég gangi af leikvelli glaður og sem meistari með félögum mínum,“ sagði Neymar, sem skoraði í öllum þremur leikjum Brasilíumanna í riðlakeppninni og lagði svo upp sigurmarkið í undanúrslitaleiknum á móti Úrúgvæum sem Fred skoraði. Spánverjar hafa aldri farið með sigur í Álfukeppninni en þeir hafa sigrað á þremur stórmótum í röð, á EM 2008, HM 2010 og á EM í fyrra.