Aníta hleypur í úrslitum! - dómurinn dreginn til baka

Aníta getur orðið heimsmeistari á sunnudaginn.
Aníta getur orðið heimsmeistari á sunnudaginn. mbl.is/Kristinn

Skjótt skipast veður í lofti á heimsmeistaramóti 17 ára og yngri í Úkraínu því nú er endanlega komið í ljós að hlaupadrottningin Aníta Hinriksdóttir fær að hlaupa í úrslitum 800 metra hlaupsins á sunnudaginn en hún var dæmd úr keppni eftir undanúrslitin fyrr í dag þar sem hún kom langfyrst í mark.

„Ég er búinn að vera með dómurunum inn í myndbandsherbergi að fara yfir þetta. Dómarinn dæmdi hana úr leik fyrir að stíga á línuna en það má ekki fyrstu 100 metrana,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson, þjálfari Anítu, við mbl.is.

„Ég heimtaði að fá að sjá myndbandið og þeir bentu bara hingað og þangað þar sem þeir vildu meina að Aníta hefði stigið á línuna. Ég sagði að það væri vonlaust að sjá á myndbandinu að hún hefði stigið á línuna og ég myndi kæra úrskurðinn til yfirdómnefndar ef hann fengi að standa.“

Steig ekki á línuna

Gunnar Páll þvertekur fyrir að Aníta hafi stigið á línuna. „Á þessu myndbandi sést að Aníta er nálægt línunni en þeir voru bara of fljótir á sér. Við skoðuðum þetta ramma fyrir ramma. Þeir stækkuðu myndina mikið meira þegar ég fór að skoða þetta með þeim og þá sást að hún steig hvergi á línuna. Hún var nálægt því en það gerðist ekki,“ segir hann.

Það kom því aldrei til þess að kæra þyrfti dóminn til yfirdómnefndar en Gunnar Páll vildi samt fá æðsta mann mótsins á staðinn til að hafa allt hundrað prósent.

„Það eru tvö stig á þessu. Dómarinn á staðnum, mótshaldarinn, dregur ákvörðun sína til baka. Ef þeir hefðu ekki gert það hefðum við kært til yfirdómnefndar en það kom ekki til þess. Ég vildi samt fá staðfestingu frá honum og fékk hann því á staðnum. Yfirdómarinn staðfestir að fyrst dómarinn dragi úrskurðinn til baka þá hlaupi Aníta í úrslitum. Það er alveg 100 prósent núna,“ segir Gunnar Páll sem er augljóslega mikið létt.

Var mjög stressuð

Aníta er með langbesta tímann af þeim átta sem komust í úrslitin og getur Ísland eignast heimsmeistara í frjálsíþróttum á sunnudaginn. Gunnar Páll er í skýjunum yfir flottu hlaupi Anítu í dag.

„Hún hljóp þetta alveg rosalega flott. Ég heyri að sumir hafa áhyggjur af því að hún hafi hlaupið of hratt en svo er ekki. Í fyrra hefði þetta verið of hratt en núna ræður hún fullkomlega við þetta. Aníta fær líka hvíldardag á milli hlaupa sem er ekki á 19 ára mótinu þannig hún nær sér fullkomlega,“ segir Gunnar Páll sem viðurkennir þó að Anítu hafi brugðið verulega þegar hún var dæmd úr keppni upphaflega.

„Hún var auðvitað mjög stressuð en þetta er alveg klárt núna. Hér segja allir við mig: „You will run in the finals,“,“ segir Gunnar Páll Jóakimsson kampakátur.

Aníta dæmd úr leik - draumurinn úti

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert