Aníta Hinriksdóttir, hlaupadrottning úr ÍR, bætti Evrópumeistaratitli 19 ára og yngri í safnið í dag í 800 metra hlaupi, aðeins sex dögum eftir að hún varð heimsmeistari 17 ára og yngri.
Aníta kom fyrst í mark í úrslitahlaupinu á EM U19 í dag á 2:01,16 mínútum en eins og alltaf fór hún hratt af stað og hljóp fyrri hringinn á 58,68 sekúndum.
Hún fékk mun meiri samkeppni í dag en undanfarna daga því úkraínsk stúlka, Olena Sidorska, elti Anítu allan tímann og gerði sig líklega til að taka fram úr Anítu þegar 50 metrar voru eftir.
En þá gaf Aníta í og vann gullið með ótrúlegum endasprett þótt augljóst var að hún sé þreytt eftir öll hlaupin undanfarna daga.
Á sex dögum er Aníta búin að vinna heimsmeistaratitil og Evrópumeistaratitil. Ekki amalegur árangur hjá þessari 17 ára gömlu stúlku.